Maríjúana og kókaín einnig í húsbíl

Fíkniefni, sem fundust í húsbíl í Norrænu í fyrradag, voru alls 190 kíló af  hassi en einnig fundust 1,5 kíló af maríjúna og 1 kíló af kókaíni. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sýndi fréttamönnum fíkniefnin nú síðdegis en þau voru flutt til Reykjavíkur í gær. Markaðsvirði er talið nema allt að hálfum milljarði.

Ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fer nú með rannsókn málsins en hollenskur karlmaður á sjötugsaldri, sem handtekinn var vegna málsins, situr í gæsluvarðhaldi til 9. júlí. Hann var fluttur með flugvél frá Egilsstöðum til Reykjavíkur í gærkvöldi og síðan í fangelsið að Litla-Hrauni.

Lögreglan segir, að rannsókn málsins sé á frumstigi. Frekari leit í bifreiðinni sé í höndum lögreglu og tollyfirvalda og óvíst hvenær henni ljúki.

Lögreglumenn við fíkniefnin, sem fundust í húsbílnum.
Lögreglumenn við fíkniefnin, sem fundust í húsbílnum. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert