Vistaksturskennsla styrkt

Ökumenn geta bráðlega fengið kennslu í vistvænum akstri.
Ökumenn geta bráðlega fengið kennslu í vistvænum akstri. Mbl.is/Árni Sæberg

Vistaksturkennsla verður styrkt af ríkisstjórninni. Verkefnið hefur verið til reynslu í eitt ár í Belgíu. Ávinningurinn er meðal annars minni mengun, lægri slysatíðni, minni innflutningur á eldsneyti og bætt umferðarmenning.

Sameiginlegt verkefni 

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að styrkja evrópuverkefni í vistaksturskennslu. Aðrir bakhjarlar verkefnisins verða Toyota á Íslandi og Vátryggingafélag Íslands (VÍS).

Landvernd mun annast rekstur verkefnisins á Íslandi og Orkusetrið á Akureyri verður samstarfsaðili við framkvæmd og kynningu.

Fimm aksturshermar væntanlegir 

Landvernd mun sjá um kennsluna með aksturshermum sem hannaðir voru af EcoLife í Belgíu í samstarfi við Toyota í Evrópu. Verkefnið hefur verið til reynslu í 1 ár í Belgíu en nú stendur til að fjölga þátttökuþjóðum og fara af stað með verkefnið í Noregi, á Spáni, í Bretlandi og á Íslandi. Fimm aksturshermar verða fluttir til Íslands og eru þeir væntanlegir síðsumars.

Mikill ávinningur fyrir samfélagið

Samfélagslegur ávinningur af vistakstri er mikill og margþættur og má t.d. nefna minni mengun, lægri slysatíðni, minni innflutning á eldsneyti og bætta umferðarmenningu. Stefnt er að því að kenna um 10.000 ökumönnum á 12 mánuðum en auk þess verða aksturshermarnir notaðir á viðburðum og kynningum af ýmsu tagi þar sem gestir og gangandi munu fá upplýsingar um vistakstur og tækifæri til að prófa aksturshermana. Þá verður í kynningu á átakinu horft til þess að miðla upplýsingum um lykilatriði í vistakstri.

Mælingar sýna að eyðsla og útblástur þeirra sem tileinka sér vistakstur minnkar um 5-10% en út frá því má áætla að eftir 12 mánuði muni útblástur minnka um sem nemur u.þ.b. 3.000 tonnum á ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert