Manntalið 1870 komið á netið

Hluti síðu úr manntalinu 1870 sem slegið var inn í …
Hluti síðu úr manntalinu 1870 sem slegið var inn í Vestmannaeyjum og er nú komið á vef Þjóðskjalasafns

Þjóðskjalasafn Íslands hefur birt stafræna útgáfu manntalsins 1870 á netinu. Þetta er fyrsta manntalið af tíu, sem Þjóðskjalasafnið hefur lokið yfirfærslu á í stafrænt form í sérstöku átaksverkefni á vegum ríkisstjórnar Íslands í tengslum við mótvægisaðgerðir í atvinnumálum. Manntalið 1870 var unnið í Vestmannaeyjum.

Fyrir eru á vef Þjóðskjalasafnsins manntölin 1703 og 1835. Hægt er að leita í manntölunum með ýmsum hætti.
 
Á tveimur árum er stefnt að því að búa til stafrænar gerðir af tíu manntölum og setja á netið. Þetta eru manntöl frá árunum 1840, 1845, 1850, 1855, 1860, 1870, 1890, 1901, 1910 og 1920.
 
Unnið á þremur stöðum
Manntölin eru slegin inn í miðlægan gagnagrunn á þremur stöðum á landinu; hjá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja, Héraðsskjalasafni Austfirðinga á Egilsstöðum og  Héraðsskjalasafni Skagfirðinga á Sauðárkróki.
 
Mikilvægar og loks aðgengilegar heimildir
Haustið 2007 ákvað ríkisstjórn Íslands aðgerðir til að styrkja atvinnulíf í sjávarbyggðum vegna samdráttar aflaheimilda. Þjóðskjalasafn Íslands fékk þá fé til að skapa störf við að búa til stafrænar útgáfur manntala og gera þau aðgengileg á netinu. Flest manntölin eru nú einungis aðgengileg í Þjóðskjalasafni. Stafræn gerð manntala á vefnum er byltingarkennd breyting á aðgengi að þessum mikilvægu heimildum og mun skapa nýjar forsendur til margvíslegra rannsókna á sögu þjóðarinnar.
 

Stafrænar útgáfur manntala Þjóðskjalasafns á netinu er að finna hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert