Einkavæðing mismunar eldri konum

Eftir að tæknifrjóvganir voru færðar frá Landspítalanum til einkareknu læknastöðvarinnar ART Medica, er erfiðara fyrir konur sem komnar eru yfir ákveðinn aldur að komast í slíka aðgerð.

Þetta segir Matthildur Jóhannsdóttir sem telur ástæðuna vera þá að fyrirtækinu sé umhugað um að geta sýnt að sem hæst hlutfall aðgerða skili tilætluðum árangri.

„Konur sem eru komnar yfir fertugt eiga erfiðara með að eignast barn. Því er ekki vænlegt fyrir fyrirtæki sem vill sýna sem bestan árangur að veita þeim þjónustuna.“

Reglugerð frá árinu 1997 kvað á um að kona skyldi að jafnaði ekki vera eldri en 42 ára þegar tæknifrjóvgunarmeðferð hefst.

Matthildur segir að þegar tæknifrjóvganir voru framkvæmdar á Landspítalanum hafi verið veittar undanþágur frá reglugerðinni. Sjálf hafi hún fengið loforð um slíka undanþágu. „En eftir einkavæðinguna hentaði ekki lengur að veita undanþágu, því þeir vildu geta sýnt sem bestar árangurstölur.“

Í frumvarpi til breytinga á lögum um tæknifrjóvganir, sem samþykkt var á síðasta degi þingsins, kemur fram að áðurnefnd aldursregla hafi ekki þótt nægilega sveigjanleg. Samkvæmt nýju lögunum skal kona vera á „eðlilegum barneignaaldri“ þegar meðferð vegna tæknifrjóvgunar hefst.

Matthildur segir að með breytingunni fái læknar enn meira vald til að ákveða eftir eigin geðþótta hvort konu verði veitt þjónustan.

„Ég vil að ákvarðanir séu teknar á læknisfræðilegum forsendum, en ekki eftir kenntitölunni.“ Hún bendir á hægt sé að mæla hormónstuðul eggjanna, svokallaðan FSH-stuðul, sem segi til um hvort viðkomandi geti orðið þunguð. „Ég varð sjálf þunguð sex mánuðum eftir að mér var fyrst neitað.“

Fyrir ári féll dómur í héraði í máli Matthildar gegn ART Medica, þar sem hún reyndi að fá hnekkt ákvörðun um að synja henni um tæknifrjóvgun þegar hún var 44 ára gömul. Matthildur tapaði málinu, sem fer fyrir Hæstarétt í september.

„Málið snýst um að fullorðið fólk fái yfirráðarétt yfir eigin lífi,“ segir Matthildur.

Ekki náðist í lækni á ART Medica við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert