VG: Vilja bjarga Þjórsá

Urriðafoss í Þjórsá
Urriðafoss í Þjórsá mbl.is/Sigurður Jónsson

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboð skorar á Samfylkinguna að beita völdum sínum og áhrifum innan ríkisstjórnarinnar til að bjarga Þjórsá. Þetta kemur fram í tilkynningu frá þingflokki VG.

„VG heitir fullum stuðningi við að hjálpa Samfylkingunni að standa í lappirnar og efna kosningaloforðin um stóriðjuhlé, enda ríður á að láta verkin tala í þágu náttúruverndar og skynsemi. VG gagnrýnir framferði Landsvirkjunar harðlega og minnir á að fyrirtækið er alfarið í eigu ríkisins. Fyrirtækið vinnur því í umboði ríkisstjórnarinnar að virkjunum í Þjórsá og ríkisstjórnin hefur í hendi sér að snúa þróun mála við og hverfa af braut frekari stóriðjuáforma og eyðileggingar.
 
Þingflokkur VG minnir á að ríkið á vatnsréttindin við Þjórsá og Alþingi hefur ekki gefið neina heimild til framsals eða sölu á þessum réttindum til Landsvirkjunar. Það er ósvífið af hálfu Landsvirkjunar, og vanvirðing við Alþingi, að veifa þessum vatnsréttindum sem einkaeign fyrirtækisins og knýja þannig á um samninga og virkjanir.

Sömuleiðis er það ósvífið af ríkisstjórninni að sitja hjá á meðan þessu fer fram og halda þannig til streitu ólýðræðislegum vinnubrögðum. Björgvin G. Sigurðsson ráðherra, sem lofaði því þráfaldlega fyrir kosningar að bjarga Þjórsá, tekur nú glaðbeittur skóflustungu að álveri í Helguvík og ríkisstjórnin leyfir Landsvirkjun áfram að haga sér eins og ábyrgðarlaust ríki í ríkinu. VG skorar á Björgvin að standa við fyrri loforð og hvetur um leið Þórunni Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra til að beita sér í málinu af öllu afli og gefast ekki upp fyrr en sigur er unninn," að því er segir í tilkynningu.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert