VG skora á ríkisstjórnina að segja þjóðinni satt

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG. Ómar Óskarsson

Þingflokkur Vinstrihreyfinginnar – græns framboðs skorar á ríkisstjórnina að segja þjóðinni satt og hætta þeim leiða ávana að svíkja kerfisbundið þau loforð sem þjóðinni eru gefin. Þingflokkurinn skorar einnig á ríkisstjórnina að hætta að breiða yfir blekkingarnar með spuna og innantómum yfirlýsingum sem engin innistæða er fyrir. Þetta kemur fram í ályktun þingflokksins.

„Það er átakanlegt að sjá hvernig Samfylkingin hefur nú í örmum Sjálfstæðisflokksins svikið hvert einasta loforð sem hún gaf um stóriðjuhlé, náttúruvernd og annars konar atvinnuuppbyggingu á landinu í síðustu kosningum.  Verst er þó að sjá aumlegar og ítrekaðar tilraunir til að breiða yfir svikin með yfirlýsingum um að ríkisstjórnin geti ekkert að gert.
 
Í gærdag sendi þingflokkur VG frá sér áskorun til Samfylkingarinnar um að standa í lappirnar og efna loforðin um að hlífa Þjórsá. VG hét Samfylkingunni stuðningi sínum ef flokkurinn sæi sóma sinn í að standa við fyrri loforð í þessum efnum. Blekið á þeirri áskorun er varla þornað þegar Samfylkingin herðir nú enn róðurinn við að svíkja þjóðina í öllum þeim loforðum er lúta að náttúruvernd og stóriðjuhléi.
 
Fyrir síðustu Alþingiskosningar lofaði Samfylkingin ítrekað 5 ára „stóriðjuhléi“ undir stefnunni „Fagra Ísland“. Nú fræðir Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra þjóðina um að ekki einn einasti þingmaður eða ráðherra Samfylkingarinnar hafi hreyft mótmælum eða gert athugasemdir við nýtt álver á Bakka á síðasta þingflokksfundi Samfylkingarinnar, ekki einu sinni umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir.
 
Þingflokkur Vinstrihreyfinginnar – græns framboðs ítrekar að það er ekki bara mikilvægt fyrir náttúru landsins, efnahag og þjóðlífið allt til lengri tíma litið að ríkisstjórnin snúi af braut stóriðjustefnunnar, heldur er það ekki síður mikilvægt samfélaginu öllu að valdhafar komist ekki upp með að blekkja og svíkja.
 
Ríkisstjórnin hefur þrátt fyrir óvenju mikinn þingmeirihluta sem um getur hefur nú þegar sýnt fullkomið getuleysi til að taka á efnahagsmálum þjóðarinnar, og hún hefur auk þess sýnt að hún stendur engan veginn við þau loforð sem lagt var upp með og breiðir yfir svikin með blekkingum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert