Iceland Express fækkar ferðum

mbl.is

Iceland Express hefur ákveðið að breyta haust- og vetraráætlun til að mæta auknum kostnaði vegna eldsneytisverðhækkana og veiku gengi krónunnar. Helstu breytingarnar sem gerðar verða á áætlun félagsins eru þær að dregið verður úr sætaframboði í haust og vetur til Kaupmannahafnar og London.

Hætt við heilsársflug til Alicante

Ákveðið hefur verið að fresta fyrirhuguðu flugi um Gatwick flugvöll í London til vors 2009. Þá verður ekki boðið upp á heilsársflug til Alicante, auk þess sem felld verða niður einstök flug á aðra áfangastaði. Farþegar sem áttu bókað flug sem fellt verður niður verða látnir vita og samkvæmt reglum um breytingar á áætlun er þeim boðin endurgreiðsla eða önnur ferðatilhögun.

Fyrirtækið mun taka í notkun Boeing 737-700 sem eru sparneytnari og umhverfisvænni vélar en áður hafa verið notaðar í áætlunarflugi til og frá landinu. Nýju vélarnar eyða til að mynda um 25% minna eldsneyti á hvern flugtíma en þær vélar sem félagið er nú með í notkun, samkvæmt tilkynningu frá Iceland Express.

Það sem af er ári hefur Iceland Express selt fleiri flugmiða en á sama tíma í fyrra og bókunarstaða félagsins er sú besta í sögu þess. Eldsneytisverð hefur hins vegar hækkað um meira en 100% á rúmu ári á sama tíma og krónan hefur veikst verulega. Því verður félagið að bæta nýtingarhlutfall vélanna, að því er segir í tilkynningu.

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express segir stöðu félagsins góða. „Við teljum að á þessari stundu sé það forgangsatriði að ná niður eldsneytiskostnaði eins og kostur er. Við höfum reynt eftir fremsta megni að halda farmiðaverði óbreyttu og eru þessar breytingar stór liður í því. Við finnum líka fyrir jákvæðum viðbrögðum viðskiptavina og erum ekki að upplifa sömu söluminnkun og aðrir. Við vonum að með þessum aðgerðum fáum við fljótlega byr í seglin aftur, en tímabundið verðum við þó að draga þau aðeins saman,“ samkvæmt fréttatilkynningu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert