Kjarnorkuiðnaðurinn leysir ekki orkuvandamál framtíðarinnar

Kolbrún Halldórsdóttir.
Kolbrún Halldórsdóttir. mbl.is/Þorkell

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri Grænna, er nýkomin heim frá Úkraínu og Hvíta-Rússlandi þar sem hún var stödd á slóðum kjarnorkuslyssins í Tsjernobyl.  Kolbrún á sæti í umhverfisnefnd Norðurlandaráðs og segir hún markmið ferðar nefndarinnar hafa verið að kanna þau áhrif sem kjarnorkuslysið hafði á umhverfið í Úkraínu og Hvíta Rússlandi og hvernig tekist hefur að vinna gegn umhverfisáhrifunum á þeim 22 árum sem liðin eru frá slysinu. 
 
„Kjarnorkuiðnaðurinn leysir ekki orkuvandamál framtíðarinnar, það má vera ljóst af þeim alvarlegu umhverfisógnum sem honum fylgja nú sem fyrr. Ástand kjarnorkuiðnaðarins í Austur-Evrópu er dapurlegt, þar er skortur á menntuðu vinnuafli, varahlutir í þau kjarnorkuver sem starfrækt eru í þessum heimshluta eru af skornum skammti og tækniframfarir síðustu ára hafa ekki skilað haldbærum lausnum varðandi örugga förgun kjarnorkuúrgangs," segir Kolbrún í fréttatilkynningu. 

„Þjóðir heims þurfa að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir annað slys á borð við það sem varð í Tsjernobyl 1986”, segir Kolbrún ennfremur.  Í tilkynningunni kemur fram að nefndin skoðaði kjarnorkuverið í Tsjernobyl og kynnti sér afleiðingar slyssins sem varð 26. apríl 1986 þegar kjarnaofn nr. 4 sprakk með þeim afleiðingum að gríðarlegt magn geislavirkja efni losnaði út í andrúmsloftið og dreifðist yfir nyrsta svæði Úkraínu, Hvíta Rússland og norður um, allt til Skandinavíu.
 
”Það var dapurlegt að fara um Brahin-sýslu sem liggur þétt við bannsvæði það sem er í 30 km. radíus umhverfis kjarnorkuverið.  Við skoðuðum borgina yfirgefnu Prypiat og sáum fjölda yfirgefinna þorpa og bæja. Núna er einungis vísindamönnum leyft að vera á svæðinu auk þeirra sem starfa við að styrkja skýli það sem reist var yfir sprunginn kjarnaofninn. Í undirbúningi er að reisa gríðarmikið hvolfþak yfir ofninn svo mögulegt verði að hefja vinnuna við að taka hann í sundur og ásamt hinum ofunum þremur. Lokatakmarkið er að hreinsa öll mannvirki af svæðinu og farga þeim á viðunandi hátt. Áætlunin sem unnið er eftir er þó óljós og ógerlegt er að segja fyrir um hvenær niðurrifi kjarnorkuversins verður lokið eða á hvern hátt þeim geislavirka úrgangi sem er þarna til staðar verður fargað“, segir Kolbrún Halldórsdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert