Ákvarðanir Útlendingastofnunar teknar án samráðs við ráðuneytið

Björn Bjarnason
Björn Bjarnason mbl.is/Sverrir

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, fjallar á vef sínum í dag um þær  umræður sem hafa verið í dag vegna úrskurðar Útlendingastofnunar um brottvísun manns frá Kenýa frá landinu. Segir Björn að þegar Útlendingastofnun tekur ákvörðun í málum sem þessum, er það gert án samráðs við dóms- og kirkjumálaráðuneytið, enda er unnt að kæra niðurstöðuna til ráðuneytisins.

Að lokinni meðferð ráðuneytisins, sé mál kært til þess, má leita álits umboðsmanns alþingis eða dómstóla. Vegna kæruheimildarinnar ræðir ráðherra ekki niðurstöðu einstakra mála opinberlega, ella yrði hann vanhæfur til að fjalla um kæru vegna þeirra. Þessa grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins ber að virða ekki síður en aðrar reglur hans.

Við meðferð mála af þessu tagi eru embættismenn bundnir af lögum eigin lands og alþjóðasamningum, þar á meðal svonefndum Dyflinarsamningi, sem liggur að baki ákvörðun í þessu máli, sem nú er til umræðu.

„Allt frá því núverandi útlendingalöggjöf var sett hafa verið miklar umræður um framkvæmd þeirra. Ég hef tvisvar flutt viðamikil frumvörp um breytingar á lögunum og tekið mið af reynslu við framkvæmd þeirra við gerð breytingartillagna. Náðist víðtæk samstaða um málið á síðasta þingi. Hin pólitíska stefnumótun mín sem ráðherra kemur fram í þessum frumvörpum og því, sem ég hef sagt um þessi mál á alþingi eða annars staðar á opinberum vettvangi.

Innan útlendingastofnunar hefur orðið til mikil þekking og reynsla á starfssviði hennar undanfarin ár. Álag á stofnunina og starfsmenn hennar hefur verið gífurlega mikið eins og tölur um útgefin leyfi sýna. Á síðasta ári voru útgefin dvalar- og atvinnuleyfi hér rúmlega 13.500 eða álíka mörg og í Finnlandi, þar sem 5 milljónir manna búa.

Hildur Dungal, hefur verið farsæll stjórnandi stofnunarinnar undanfarin ár. Hinn 1. júní sl. fór hún í barneignarleyfi og setti ég Hauk Guðmundsson, skrifstofustjóra í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, forstjóra í hennar stað. Haukur hefur mikla reynslu af útlendingamálum og framkvæmd þeirra innan lands og utan," að því er Björn segir á vef sínum.

Vefur Björns Bjarnasonar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert