Líkamsárásir og eftirför meðal verkefna lögreglunnar

Jeppinn að leikslokum.
Jeppinn að leikslokum. Mbl.is/Jóhann A. Kristjánsson

Gríðarmikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt.  Um 200 mál eru bókuð hjá lögreglunni sem er yfir meðallagi. Meðal annars um hnífstungu og fimm líkamsárásarmál. Ölvunarakstur og eftirför.

Um tíuleytið  í gærkvöldi var tilkynnt um aðfinnsluvert aksturslag á Toyotu Landcrusier jeppa á Suðurlandsvegi. Er lögreglan gaf bifreiðinni stöðvunarmerki við Rauðavatn sinnti ökumaður því engu og jók hraðan, ók suður Breiðholtsbraut, fram úr bílum öfugu megin og inn í Árbæinn. Þar var ekið á ofsahraða eða allt að 100 km / klst þar sem hámarkshraði er 30km klst  ökumenn og gangandi vegfarendur áttu fótum sínum fjör að launa að forða sér frá. 

 Ekið fram úr öfugu megin

Áfram var haldið  á mikilli ferð Rofabæ og inn á Bæjarháls þaðan á Höfðabakka og austur Vesturlandsveg að Grafarholti.  Ekið inn í Grafarholtið og engu skipti þótt lögreglumenn settu upp lokanir og þrengingar, bifreiðinni var miskunnarlaust ekið yfir kanta, yfir hringtorg, móti rauðu ljósi, upp á gangstéttir og öfugt á móti akstursstefnu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Lögreglubifreið ekið utan í bifreiðina

Eftirförin barst aftur inn á Vesturlandsveg, í átt að Mosfellsbæ en í hringtorgi við Skarhólabraut tókst lögreglu loks að hefta för bifreiðarinnar með því að aka utan í hana. Við það valt bifreiðin og hafnaði utan vegar. 

Ökumann sakaði ekki og var hann handtekinn og gistir nú fangageymslur lögreglu en hann var í annarlegu ástandi.  Bifreiðin, sem maðurinn ók, var stolið fyrr um daginn.  Ökumaður bíður yfirheyrslu er af honum rennur víman.

Reyndi að stinga af á hlaupum

Þá sinnti annar ökumaður ekki stöðvunarmerkjum lögreglu í Hafnarfirði og ók gegn rauðu ljósi í tilraun sinni til að sleppa frá lögreglunni. Í Víðibergi stöðvaði hann loks og reyndi að komast burtu á hlaupum.  Lögreglumenn, fráir á fæti, hlupu ökumanninn léttilega uppi og var hann fluttur á lögreglustöð og sviptur ökuréttindum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Alls voru 6 teknir grunaðir um ölvun við akstur. Fimm árekstrar voru tilkynntir til lögreglu þar af var einn grunaður um ölvun við akstur en hann ók á hús að Öldugötu 44 í Hafnarfirði.

Fjöldaslagsmál við Keiluhöllina

5 líkamsárásarmál voru tilkynnt til lögreglu í gærkvöldi og nótt. Meðal annars fjöldaslagsmál við Keiluhöllina þar sem átta Litháar slógust. Sjö þeirra  voru handteknir og færðir í fangageymslu en sá áttundi var fluttur á slysadeild með höfuðáverka og brotnar tennur.

Árás sem endaði með hnífstungu

Lögregla var send í íbúðarhúsnæði í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði í nótt þar sem tilkynnt var um hnífstungu. Svo virðist sem fimm útlendir karlmenn  hafi ráðist inn á Íslending sem býr í einu af leiguherbergjum í húsnæðinu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.  Hann varðist árásinni með hnífum og særði einn. Sá var fluttur á slysadeild með áverka á brjósti.  Hnífamaðurinn íslenski var handtekinn og gistir fangageymslur.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu virðist sumarnóttin eitthvað hafa farið illa í íbúa á höfuðborgarsvæðinu því mikið var um að kvartað væri undan hávaða og ólátum. Nokkur fjöldi var samankominn í miðborginni og talsvert um ölvun.


Mbl.is/Jóhann A. Kristjánsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert