Ástandið enn ótryggt í Kenía

FÍDEL er sonur Paul Ramses og Rosemary Atieno Athiembo. Faðir …
FÍDEL er sonur Paul Ramses og Rosemary Atieno Athiembo. Faðir hans hefur nú verið sendur í hælisleitendabúðir á Ítalíu af Útlendingastofnun, sem aldrei tók mál hans fyrir. Mbl.is/Árni Sæberg

Paul Ramses hefur ekki enn fengið að leggja fram pappíra sína á Ítalíu. Hann segir samsteypustjórn Odinga og Kibaki í Kenía einungis vera til af hagvæmnisástæðum og ástandið sé afar ótryggt fyrir stuðningsmenn Odinga.

Ekki fengið að afhenda pappíra sína ennþá

Paul Ramses sem nú dvelur á gistiheimili í Róm segist ekki hafa hitt neina embættismenn ennþá fyrir utan lögregluyfirvöld. Hann hefur verið beðinn um að skýra nákvæmlega allar sínar aðstæður og skrá lífsferil sinn.

Á mánudag, þegar hann fór til yfirvalda, var hann beðinn að skrá þetta allt samviskusamlega niður en honum gafst ekki tími til þess í heimsókn sinni þangað. Hann var því beðinn að koma aftur í dag sem hann gerði.

„Ég var þá búinn að skrifa tólf blaðsíður. Þegar ég kom svo á staðinn var mér tjáð að tölvur væru í lamasessi og beðinn að koma aftur í næstu viku,“ segir Paul. Hann sagði það auðsjáanlegt að ítölsk yfirvöld væru að fást við gríðarlega mörg mál af svipuðum toga og allt gengi afar hægt fyrir sig.

Ekki spurning um hvort ég yrði drepinn heldur hvernig

Aðspurður um líðan sína segir Paul að hann sé búinn að vera mjög ringlaður og óttasleginn. Hann óttist ekki hvort hann yrði drepinn heldur hvernig. „Ég vann mikið Odinga sjálfum og ég veit að Kibaki og stuðningsmenn svífast einskis þegar kemur að miklum stuðningsmönnum Odinga. Ég veit um að minnsta kosti tíu menn sem hafa horfið og veit með vissu að þrír þeirra voru drepnir. Tveir þeirra voru þingmenn þessarar samsteypustjórnar og sögðu okkur á fundi að ekkert væri að óttast. Tveimur vikum síðar voru þessir menn báðir látnir.“

Paul segir að núverandi stjórn Kibakis og Odinga sé eingöngu til bráðabirgða. Odinga hafi verið ráðlagt að sætta sig við að sitja með Kibaki næstu fimm árin og vonast eftir að betur gengi eftir næstu kosningar. Ef allt gengi að óskum yrðu það frjálsar og lýðræðislegar kosningar. Kibaki vinni hins vegar að því leynt og ljóst að fjarlægja mikla stuðningsmenn Odinga svo öruggt sé að fylgi Odinga verði ekki mikið í næstu kosningum.

Paul segist tilheyra Luo ættflokknum en hann er þriðji stærsti ættbálkurinn í Kenía. Ættbálkurinn hefur löngum tekið þátt í stjórnmálum landsins og er lýðræðishefð sterk meðal hans. Raila Odinga tilheyrir Luo ættbálkinum líka. Næst stærsti ættbálkurinn, Kikuyu, er ættbálkur Mwai Kibaki forseta. Síðan að Oginga Odinga faðir Raila Odinga, sagði af sér varaforsetamennsku árið 1966 hefur verið nokkuð kalt milli þessara tveggja ættbálka og Luo ekki haft mikil áhrif. Í forsetakosningunum í desember 2007 létust á að giska þúsund manns í erjum milli Luo-fólks og Kikuyu-fólks.

Þess má geta að Barack Obama eldri er af Luo ættbálki.

Er jákvæður

Paul segist vera jákvæðari nú en hann var í byrjun og þá sérstaklega eftir að allsherjarnefnd fjallaði um mál hans í dag. Það sé gott að heyra að margir nefndarmanna séu hlynntir því að mál hans verði endurskoðað. „Mig langar að þakka kærlega allan þann stuðning sem við fjölskyldan finnum fyrir. Hann hefur mikið að segja fyrir okkur. Ég er kristinn maður og ég bið fyrir því að mér verði leyft að snúa til Íslands aftur. Það er þar sem við viljum eiga heima,“ segir Paul að lokum.

Paul Ramses
Paul Ramses
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert