Framsókn: Seðlabankinn taki erlent lán

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Golli

Þingflokkur framsóknarmanna telur að Seðlabanki Íslands verði að nýta heimildir Alþingis til töku erlends láns sem allra fyrst til að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans, styðja við fjármálakerfi landsmanna og auka trúverðugleika íslensks efnahagslífs. Þetta kemur fram í tillögum Framsóknarflokksins vegna ástands efnahagsmála.

Alvarleg efnahagskreppa liggur í loftinu

„Alvarleg efnahagskreppa liggur í loftinu. Hún er m.a. tilkomin vegna alþjóðlegrar lánsfjárkreppu en einnig er vandinn að miklu leyti heimatilbúinn. Íslensk stjórnvöld hafa enn ekki gripið inn í atburðarrásina með afgerandi hætti og fyrir vikið eru líkur á að kreppan verði dýpri og lengri en ella. Trúverðugleiki efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar hefur beðið hnekki vegna yfirlýsinga sem ekki hefur verið fylgt eftir. Orðum hafa ekki fylgt efndir, því má líkja við alvarleg hagstjórnarmistök. Það stefnir í verulega aukið atvinnuleysi, þegar er hafinn samdráttur á húsnæðismarkaði, fjármálakerfið er í kröggum, og mörg fyrirtæki og einstaklingar eiga í erfileikum og stefna í þrot. Aðgerðarleysi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gagnvart þessum kringumstæðum er grafalvarlegt og veikir tiltrú á íslenskt efnahagslíf.

Framsóknarmenn vilja að ráðist verði nú þegar í eftirfarandi aðgerðir:

Þingflokkur framsóknarmanna telur að Seðlabanki Íslands verði að nýta heimildir Alþingis til töku erlends láns sem allra fyrst til að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans, styðja við fjármálakerfi landsmanna og auka trúverðugleika íslensks efnahagslífs.

Þingflokkur framsóknarmanna kallar eftir því að ríkisstjórn og Seðlabanki komi fram með skýra áætlun um hvernig íslenskt þjóðfélag á að vinna sig í gegnum þá djúpu efnahagslægð sem þjóðin stendur frammi fyrir til að skapa trú og traust á stefnu þeirra sem fara með stjórn efnahags- og peningamála hér á landi. Seðlabankinn verður að auka gagnsæi ákvarðanatöku sinnar, m.a. með birtingu rökstuðnings fyrir vaxtaákvörðunum. Hafa ber í huga að Seðlabankinn er ekki aðeins bundinn verðbólgumarkmiði heldur einnig því að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi og framgangi efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.

Þingflokkur framsóknarmanna bendir á að samdráttur íslenska hagkerfisins virðist vera harðari og meiri en gert var ráð fyrir og því eru fullar forsendur fyrir því að hafið verði lækkunarferli stýrivaxta Seðlabanka Íslands hið fyrsta. Þetta verði liður í þeim vegvísi sem ríkisstjórn og Seðlabankinn þurfa að opinbera fólki og fyrirtækjum.

Þingflokkur framsóknarmanna vill styrkja stoðir íbúðalánamarkaðarins. Endurfjármögnun Íbúðalánasjóðs á fasteignalánum fjármálastofnana verði til reiðu vegna lána undir ákveðnum fjárhæðarmörkum. Þannig er komið með félagslegum hætti að vanda tekjulægri hópa.

Þingflokkur framsóknarmanna vill að undirbúningi stórframkvæmda á vegum ríkis og sveitarfélaga verði hraðað þannig að hægt verði að ráðast í þær með skömmum fyrirvara. Horfa þarf sérstaklega til arðbærra framkvæmda sem hafa margföldunaráhrif á allt hagkerfið.

Þingflokkur framsóknarmanna ítrekar enn að ríkisstjórnin þarf að taka frumkvæði að nýrri þjóðarsátt með aðgerðum sem draga úr verstu áhrifum efnahagskreppunnar. Mikilvægar forsendur þess eru að ríkisstjórnin virki boðaðan samráðsvettvang stjórnarsáttmálans til samræmdra aðgerða stjórnvalda og atvinnulífs.

Tillögur þessar eru settar fram í framhaldi af fundum með aðilum vinnumarkaðar, fjármálafyrirtækja og hinum ýmsu fræðimönnum þjóðarinnar. Þingflokkur framsóknarmanna kallar eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar og lýsir sig reiðubúinn að aðstoða hana við að taka á efnahagsvandanum," að því er segir í tillögum þingflokks framsóknarmanna.

Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson. mbl.is/G.Rúnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert