Reyniviður finnst í Búrfellsskógi

Reyniviðarplönturnar í Búrfellsskógi.
Reyniviðarplönturnar í Búrfellsskógi. Hreinn Óskarsson

Reyniviður hefur fundist í Búrfellsskógi en hann hefur ekki fundist áður í Þjórsárdal eða í birkiskógum við Heklurætur.

Það var verkefnisstjóri Hekluskógaverkefnisins, Hreinn Óskarsson, sem rakst á plönturnar fyrir skemmstu er hann var á ferð í Búrfellsskógi. Þetta kemur fram á vef Hekluskóga.

Hreinn segist ekki hafa rekist á neinar upplýsingar um að reyniviður yxi á þessum slóðum frekar en annarsstaðar í Þjórsárdal eða í birkiskógum við Heklurætur.

Reyniviðartrén standa austan Búrfellsskógarins á hálfgerðri eyju sem umlukin er Þjórsá að austanverðu, en tærri á að vestanverðu. Hefur Þjórsá fyrr á árum runnið beggja megin við eyjuna, að minnsta kosti í vatnavöxtum og því gæti hún hafa verið í friði fyrir beit á einhverjum tíma árs.

Tvö stór reyniviðartré vaxa á svæðinu og eru þau margstofna, um 4-5 m há og voru í fullum blóma mánaðarmótin júní-júlí. Umhverfis þessi gömlu tré uxu mörg smærri reyniviðartré.

Ekki er hægt að fullyrða hvort um náttúrulegan reynivið sé að ræða, en vaxtarlagið og vaxtarstaðurinn gæti bent til þess að svo sé.

Ef einhver hefur upplýsingar um þessa reyniviði þá má viðkomandi hafa samband við verkefnisstjóra Hekluskóga með því að senda póst á netfangið hreinn@hekluskogar.is .

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert