N1 lækkar verðið

Bensínverð hefur lækkað hjá N1.
Bensínverð hefur lækkað hjá N1. AP

N1 hefur lækkað verð á bensíni og dísilolíu um 1,20 kr. Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri eldsneytis hjá N1, segir að nú kosti lítrinn af 95 oktana bensíni 175,60 kr. í sjálfsafgreiðslu, en dísilolían kostar nú 193,60 kr.

 Magnús segist hafa átt von á því að heimsmarkaðsverð á olíu myndi fara lækkandi eftir miðjan júlí. Hann segir hins vegar að það hefði verið betra ef það hefði verið á markaðslegum forsendum, en ekki vegna yfirlýsingar seðlabankastjóra Bandaríkjanna. 

 „Engu að síður þá verður maður að bera þá von í brjósti að verðið muni ekki ganga mikið til baka aftur, og þetta sé varanleg lækkun. En tíminn verður að leiða það í ljós,“ segir Magnús og bætir við að hann hafi vissar efasemdir um að ástandið muni haldast þannig.

Krónan stöðug

Magnús segir stærstu fréttina vera þá að krónan hafi haldist stöðug í dag. „Hún er ekki að taka nein stökk. Það finnst mér eiginlega vera, allavega fyrir Íslendinga, vera stóra fréttin. Krónan er stöðug í augnablikinu.“ 

Aðspurður segir hann að gamla þumalputtareglan hafi verið sú að þegar heimsmarkaðsverð á hráolíu lækkar þá hafi það tekið á bilinu þrjár til fjórar vikur að skila sér út í eldsneytisverðið. Í dag taki þetta aðeins nokkra daga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert