Strætó verði glæsilegri

Aksturssamningar Strætós bs. við einkaaðila sem aka á um helmingi leiðakerfis Strætós fara í heildarútboð innan EES á næstunni, að sögn Gísla Marteins Baldurssonar, borgarfulltrúa og stjórnarmanns í Strætó bs. Hann taldi líklegt að borgarráð Reykjavíkur afgreiði málið fyrir sína hönd á næsta borgarráðsfundi. Aksturinn verður boðinn út til átta ára og sagði Gísli Marteinn að í útboðinu verði settir strangari skilmálar um strætisvagnana en gilt hafa hingað til. Markmiðið er að auka gæði þjónustu Strætós til mikilla muna.

„Við gerum miklar kröfur um hvernig strætisvagnarnir eiga að vera hvað varðar gæði og útlit. Þegar akstur hefst samkvæmt nýjum aksturssamningum á vagnafloti Strætós að vera að mestu glænýr og glæsilegur,“ sagði Gísli Marteinn.

Eins líklegt þykir að íslensk fyrirtæki leiti samstarfs við erlend fyrirtæki vegna verkefnisins eða að erlend fyrirtæki kunni að bjóða í verkið.

Hörður Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Strætós bs., sagði að nú sé Strætó með um 95 vagna í þjónustu sinni. Hann taldi að útboðið muni ná til um helmings flotans og að verkið verði boðið út í sumar. Líklegt þykir að nýir aksturssamningar gangi í gildi í lok næsta árs. Margir vagnanna sem verktakar hafa notað eru komnir til ára sinna. Hörður sagði því ljóst að endurnýjun verði á þeim vagnakosti. Vagnar í eigu Strætós eru yngri, að jafnaði um fimm ára gamlir.

Hörður sagði að mikil þróun hefði orðið í búnaði strætisvagna. Reikna megi með því að nýir vagnar verði auðveldari í umgengni, innstig og útstig betra, gólfin lægri, betri handföng og sæti, betri miðstöðvarkerfi og vagnarnir hljóðlátari.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert