Drýgir dísilolíuna með hákarlalýsi

Óðinn Sigurðsson tappar af lýsistankinum og hellir á Hiluxinn.
Óðinn Sigurðsson tappar af lýsistankinum og hellir á Hiluxinn. mbl.is/Atli Vigfússon.

„Það má ekki segja frá því, þá fara þeir að lita fyrir mér hákarlalýsið,“ segir Óðinn Sigurðsson hlæjandi þegar hann var spurður um þá iðju sína um þriggja ára skeið að drýgja dísilolíuna á bílinn sinn með hákarlalýsi. Hinn hagsýni bíleigandi féllst þó loks á viðtal og segir ástæðuna fyrst og fremst liggja í því að hann hafi ekki tímt að henda lifrinni.

„Ég hendi bara hákarlalifrinni í dall og læt hana renna, svo veiði ég lýsið ofan af og helli því á bílinn,“ segir Óðinn, sem sjálfur veiðir hákarlana. Hann setur þrjá til fimm lítra á móti hverjum 50 og sparar sér því rúmlega 900 krónur á hverjum tanki, miðað við verð á dísilolíu í gær. Auk þess sparar hann sér ferð út á sjó til að henda lifrinni, með tilheyrandi kostnaði.

Óðinn vill ekki gera mikið úr lyktinni sem kemur af brennslu lýsisins. „Það er aðeins öðruvísi lykt af þessu, en það gerir ekkert til.“

„Þetta er eins og hvert annað lífdísil, þetta smyr vélina,“ fullyrðir hann, og má glöggt heyra að hann er þeirrar skoðunar að hinn 20 ára gamli Toyota Hilux-jeppi gangi jafnvel betur á lýsinu en án þess.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert