Ljóðakeppni á Litla-Hrauni

Verðlaun voru veitt í ljóðasamkeppni fanga á Litla-Hrauni í dag. Átta fangar tóku þátt og voru ljóðin samtals 27. Sigurvegari keppninnar var Ásgeir Hrafn Ólafsson, með ljóðið Ástand.

Undanfarið hafa fangar á Litla-Hrauni verið að vinna með ljóðið en hugmyndin hefur verið að færa ljóðið nær föngunum. Ljóðabækur hafa legið frammi og ljóð hafa til dæmis verið hengd upp á veggi, lögð á borð og límd á innanverðar klósettdyr . Enn fremur stóð bókasafn Litla-Hrauns fyrir ljóðasamkeppni meðal fanga.

Hugmyndin að ljóðaátakinu kviknaði í tengslum við það að hálf öld var liðin frá dánardegi Steins Steinarrs auk aldarafmælis skáldsins í haust. Ljóðasamkeppnin á Hrauninu fór því fram undir yfirskriftinni: „Steinn í steininum".

Valinkunnt fólk sat í dómnefnd: Formaður dómnefndar var Silja Aðalsteinsdóttiri, en auk hennar sat Einar Már Guðmundsson, Hallgrímur Helgason, Ísak Harðason og fangavörðurinn Björn Ingi Bjarnason í nefndinni.

Forráðamenn Litla-Hrauns sögðu möguleikann á góðri og skemmtilegri uppákomu sem þessari, sem stytti stundir og efldi anda innan múra, vera tilkomin vegna aðstoðar og velvilja allra sem að henni kæmu. Bókaútgáfan Forlagið gaf verðlaunin.

Einar Már Guðmundsson las sigurljóðið og nokkrir vistmenn fangelsins fluttu tónlistaratriði. Að athöfn lokinni gæddu gestir og vistmenn sér á veitingum en vistmenn sáu alfarið um þær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert