Ætluðu til Reykjavíkur - lentu í Rijeka

Sænsk hjón, sem ætluðu á ráðstefnu á Íslandi, urðu frekar hissa þegar þau voru send í vegabréfaskoðun á Gardemoenflugvelli í Ósló þaðan sem þau ætluðu að fljúga til Íslands. Í ljós kom að þau höfðu bókað flug til Rijeka í Króatíu og þangað fóru þau.

Åke Johannesson, sem býr í Torsby í Vermalandi í Svíþjóð, segir í samtali við sænska útvarpið, að hann hefði bókað flugið á netinu. Þegar nafnið Rijeka kom upp í netleit hélt hann að það væri stytting á Reykjavík og bókaði því flug þangað. Síðan pantaði hann hótel í Reykjavík og greiddi fyrir. Þau hjónin óku síðan til Óslóar og skráðu sig inn í flugið.

„Við vorum síðan send í vegabréfaskoðun og fannst það einkennilegt þar sem Ísland er nú eitt af Norðurlöndunum. Konan slapp þar í gegn en ég var spurður hvað ég ætlaði að gera í Króatíu" sagði Johannessen við SR.

„Hvað getur maður gert þegar maður stendur á flugvellinum og flugvélin er að fara eftir tuttugu og fimm mínútur?" bætti hann við og þau hjónin fóru til Riekaflugvallar, sem raunar er á eyjunni Krk við strönd Adríahafsins og er aðeins opinn í 100 daga á ári.

Johannessen var með 66 þúsund íslenskar krónur í vasanum. „Gátuð þið notað íslenska peninga í Króatíu?" spurði fréttamaðurinn forvitinn en Johannessen sagði þegar komið var til Rijeka hafi þeim verið útvegað hótel og annar viðurgjörningur. Þá fengu þau hótelið á Íslandi endurgreitt. „Það var talsvert hlegið að þessu," sagði hann, „en það bjargast allt, eins og við segjum í Vermalandi."

Viðtalið við Johannessen

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert