Allt að 200 missa vinnu við samruna SPRON og Kaupþings

Búist er við því að Fjármálaeftirlitið samþykki yfirtöku Kaupþings á SPRON innan tíðar. Enn er nokkurri óvissu háð hvort Samkeppniseftirlitið samþykkir yfirtökuna. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun starfsmönnum Kaupþings og SPRON fækka um 150 til 200 manns, í kjölfar yfirtökunnar, verði hún á annað borð samþykkt, líkast til nær 200.

Samkvæmt sömu heimildum er líklegt að meirihluti þeirra starfsmanna sem sagt verður upp, verði úr röðum starfsmanna SPRON.

Hjá SPRON starfa um 250 manns, um 75 eru starfandi í útibúunum en um 175 starfsmenn starfa í höfuðstöðvum sparisjóðsins. Að mati sérfróðra er um mikla yfirmönnun að ræða í höfuðstöðvunum og því viðbúið að þeir sem fyrstir munu sjá uppsagnarbréf verði úr höfuðstöðvum SPRON við Ármúla og þá einkum úr stoðdeildum SPRON, sem eru þrjár talsins, sem í kjölfar yfirtökunnar munu renna saman við stoðdeildir Kaupþings, svo og af ólíkum afkomusviðum SPRON sem eru sex talsins.

Ekki er búist við að mikil fækkun verði meðal starfsmanna útibúa SPRON, sem margir eiga jafnvel margra áratuga starfsferil að baki.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er einnig búist við að launakjör ýmissa starfsmanna SPRON, ekki síst yfirmanna og millistjórnenda verði tekin til endurskoðunar, eftir að yfirtakan hefur farið fram, en eitt af því sem mun hafa komið þeim sem unnið hafa að yfirtökunni hvað mest á óvart, eru ótrúlega há laun talsverðs hóps starfsmanna SPRON.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert