„Mikill titringur í dag"

„Það hefur verið mikill titringur í dag.  Það hristist allt og skalf í skápum hjá mér en ekkert datt úr hillum," segir Ragna Gunnarsdóttir, íbúi í Grímsey, sem fann vel fyrir skjálftanum sem reið yfir í Grímsey fyrir skömmu. 

Jarðskjálfti, sem mældist 4,9 stig á Richter, varð um 15 km austnorðaustur af Grímsey nú um klukkan 18:35 og hafa nokkrir snarpir en minni skjálftar fylgt í kjölfarið, þeir stærstu um 4 á Richter. Veðurstofan segir að virknin sé enn í gangi og ekki útilokað að stærri jarðskjálftar geti riðið yfir. Alls hafa mælst tæplega 200 skjálftar austan Grímseyjar í dag.

Ragna segir skelfingu ekki hafa gripið um sig í Grímsey í dag, þó mikil skjálftavirkni hafi verið á svæðinu.  „Grímseyingar eru orðnir vel skólaðir í jarðskjálftum, það er ekki óvanalegt að hrinur komi hér á þessu svæði.  En þetta er alltaf svolítið ónotalegt á meðan þetta gengur yfir,"segir Ragna.

Skjálftahrina hófst á þessu svæði um hádegisbil í dag og þá kom einn kippur, sem mældist 4,1 stig á Richter og nokkru síðar annar sem mældist 4,3 stig.  Alls hafa mælst tæplega 200 skjálftar austan Grímseyjar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert