Dólgslæti og dónaskapur

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Borið hefur á dólgslátum og dónaskap í garð starfsfólks Spalar við Hvalfjarðargöngin. Einkum eru það bílstjórar með vagna og hjólhýsi sem skeyta þannig skapi sínu á starfsfólki.

Á heimasíðu Spalar segir að viðskiptavinir félagsins séu upp til hópa kurteisir og elskulegir í alla staði. Þó kæmi það reglulega fyrir að menn væru illa fyrir kallaðir og létu það þá bitna á starfsfólki Spalar, bæði vaktmönnum í gjaldskýlinu og þeim sem svöruðu í síma á skrifstofu félagsins á Akranesi.

Nokkur slík atvik komu upp í fyrrasumar og hefur sagan endurtekið sig í ár.

Samkvæmt Speli eru það einkum bílstjórar sem rukkaðir eru um viðbótargjald fyrir vagna eða hjólhýsi sem þeir eru með aftan í bílunum sínum sem þannig hegða sér.

Orðbragðið sem sumir vegfarendur viðhefðu sé ekki birtingarhæft og mælist Spölur til þess að menn dragi djúpt andann, bíti í tungu sína og komi sjónarmiðum sínum frekar á framfæri við ráðamenn Spalar á Akranesi en að skeyta skapi sínu á ágætu starfsfólki félagsins.

Vill Spölur mælast til þess að fólk viðhafi almenna kurteisi og dragi fram góða skapið jafnvel þótt fólk sé ósátt við gjaldskrá félagsins. Kurteisi kosti ekkert en sé farsælasta leiðin í mannlegum samskiptum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert