Auðlindaleit á Drekasvæðinu milli Jan Mayen og Íslands

Ætlunin er að verja 160 milljónum króna til þess að rannsaka hvort olíu geti verið að finna á hinu svokallaða Drekasvæði á milli Jan Mayen og Íslands. Í fréttaskýringu Arnþórs Helgasonar blaðamanns í Morgunblaðinu í dag kemur fram að margt er líkt með hafsbotninum á Drekasvæðinu og botninum á norska landgrunninu.

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson er nýkomið úr leiðangri þar sem rúmlega tíu þúsund ferkílómetra svæði á hafsbotninum nyrst á Drekasvæðinu var kortlagt og nú liggja því fyrir mun nákvæmari upplýsingar um það en áður.

„Meðal þess sem við mældum voru holur um 15 m djúpar og allt að 700 m í þvermál. Slíkar holur í setlögum hafa mikið verið rannsakaðar því að þær hafa víða fundist á olíuvinnslusvæðum eins og í Norðursjónum,“ segir Guðrún Helgadóttir, jarðfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, sem stýrði leiðangrinum.

Olían hefur breytt norskum efnahag. Nú eru bundnar vonir við að olía finnist við Grænland. Bandarískir vísindamenn sögðu nýlega frá því að miklar olíulindir gæti verið að finna á norðurpólnum. Það verður hins vegar að segjast að fréttir af nýjum olíusvæðum hljóma um þessar mundir eins og tilkynning um lengingu á gálgafresti til þess að leita nýrra leiða til að uppfylla orkuþarfir mannkyns.

Rannsóknirnar á Drekasvæðinu lúta að undirbúningi útgáfu sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi þar. Líklegt er að olíufélög muni sýna þessu svæði áhuga. Eftir því sem olíuverð hækkar verða þau tilbúin til að leggja í meiri kostnað og setja erfiðar aðstæður síður fyrir sig.

Ef olía finnst gæti það reynst búhnykkur fyrir Íslendinga. Það er hins vegar fullkomlega ótímabært að binda miklar vonir við olíu. Hins vegar er full ástæða til þess að leggja aukinn kraft í þróun vistvænnar orku. Allar forsendur eru fyrir hendi til þess að gera Ísland óháð olíu. Þróunin í framleiðslu visthæfra ökutækja er hröð.

Enn er vitaskuld deilt um það hvaða leið eigi að fara og engin leið að sjá hvort metan, vetni, rafmagn eða aðrir kostir verða ofan á. Þótt olía gæti – tímabundið – orðið íslensk útflutningsvara á að leggja áherslu á að finna leiðir til að losna úr viðjum olíunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert