Mest gjaldþrota

Höfuðstöðvar Mest.
Höfuðstöðvar Mest. mbl.is/Frikki

„Mest er gjaldþrota,“ segir Kári Steinar Lúthersson, fyrrverandi framkvæmdastjóri sölusviðs félagsins. Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Stjórn Mest, sem nýlega fékk nafnið Tæki, tól og byggingavörur ehf., fór í gær fram á að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Starfsemin hefur legið niðri undanfarið vegna rekstrarörðugleika. Á milli 50 og 60 manns störfuðu hjá félaginu.

Í tölvubréfi sem sent var starfsmönnum Tækja, tóla og byggingavara í gær segir að ekki hafi reynst unnt að greiða út laun fyrir júlímánuð. Guðrún Lárusdóttir, starfandi starfsmannastjóri, muni í samráði við viðkomandi stéttarfélög fara yfir kröfugerðir vegna launa og orlofs.

Guðrún vildi ekki tjá sig við Morgunblaðið í gær. Pétur Guðmundsson, einn stjórnarmanna sem tóku ákvörðun um gjaldþrotaskiptin, vildi ekki svara því hversu stórt gjaldþrotið væri né hvort unnt yrði að greiða launakröfur úr þrotabúinu.

Morgunblaðið sagði fyrst frá því 9. júlí að Mest reri lífróður til að forða sér frá gjaldþroti. Tilkynnt var 21. júlí að Glitnir hefði tekið yfir steypustöðvar, helluframleiðslu og verslun með múrvörur og sett í nýtt félag, Steypustöðina Mest. Annar rekstur var áfram rekinn á kennitölu Mest en undir nafninu Tæki, tól og byggingavörur ehf.

Sigurjón Grétarsson, fyrrverandi starfsmaður, segir engan í forsvari fyrir starfsmenn. VR muni gæta hagsmuna flestra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert