„Skýrir hvers vegna síðasti meirihluti sprakk"

Ólafur F. Magnússon er í sumarleyfi á Austurlandi.
Ólafur F. Magnússon er í sumarleyfi á Austurlandi. mbl.is/Gunnar Gunnarsson

Það sem nú er að koma fram í dagsljósið í skipulagsmálum í Reykjavík, sýnir svo ekki verður um villst hvers vegna síðasti borgarstjórnarmeirihluti sprakk. Þetta er mat borgarstjórans á heitum borgarmálum, svo sem Listaháskóla og Bitruvirkjun. „Það voru ekki málefnalegar forsendur til að halda samstarfi áfram,“ segir Ólafur F. Magnússon.

Borgarstjóri segir Magnús Skúlason hafa sama brennandi áhuga á verndun gamallar götumyndar í borginni og hann sjálfur. Því hafi hann óskað eftir að Magnús settist í skipulagsráð. „Hann tilheyrir stórum hópi sem stendur heilshugar bak við mig í flugvallarmálinu. Núverandi meirihluti setti í stefnuskrá að vernda gamla götumynd Laugavegarins og ekki til málamynda, eins og oft er með stjórnarsáttmála. Þessa stefnuskrá á að standa við. Ég hef talað fyrir verndun menningarminja, lengst af einn, en nú hefur orðið algjör hugarfarsbreyting og afgerandi meirihluti í borgarstjórn skilur að borgir sem bera gæfu til að vernda menningarsögu sína eru sterkari og dafna betur en þær sem gleyma að varðveita söguna. Ég og Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður skipulagsráðs, erum alveg samstiga og ég sé að fyrrverandi formaður skipulagsráðs, Svandís Svavarsdóttir, lætur málefnin ráða en ekki tækifærismennsku í pólitík.“

Sjálfstæðismenn með

„Nú er öldin önnur en í R-listanum þar sem Framsókn hafði afgerandi áhrif í skipulagsmálum, ekki síst um stórkarlaleg niðurrifsáform við Laugaveg,“ segir borgarstjóri. „Mér sýnist Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi formaður skipulagsráðs Reykjavíkur, vera enn við sama heygarðshornið og þegar ég barðist einn gegn niðurrifsstefnu í borgarstjórn. Nú er öldin önnur, Sjálfstæðisflokkurinn vinnur með mér að húsverndarstefnunni sem ég hef lengi barist fyrir og VG styður.“

„Ég er þekktur fyrir að standa við orð mín. Þar ættu iðnaðarráðherra og aðrir leiðtogar Samfylkingarinnar að taka mig til fyrirmyndar. Bitruvirkjun var slegin af því í fyrsta skipti í langan tíma er borgarstjóri einlægur umhverfissinni. Ég myndi aldrei segja „Fagra Ísland“ en meina allt annað. Gárungarnir í Samfylkingunni hafa víxlað stöfum, þeir hafa meint farga,“ segir borgarstjóri, sem svar við yfirlýsingum Össurar Skarphéðinssonar, sem ritar um einræðistilburði borgarstjóra sem geti stjórnað Sjálfstæðisflokknum með hótunum. „Það er ekki minn stíll að hóta, málefnasamningurinn er mér kær,“ segir Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert