,,Hélt að það væri kominn jarðskjálfti"

Það var handagangur í öskjunni þegar heimamenn tjölduðu í Herjólfsdal …
Það var handagangur í öskjunni þegar heimamenn tjölduðu í Herjólfsdal í dag. mbl.is/Sigurgeir

Mikið kapphlaup er ávallt í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum þegar heimamenn reisa hvítu tjöldin fyrir þjóðhátíð. Þrátt fyrir að ákveðin tímasetning sé gefin upp hefur ekki tekist í tugi ára að standa við hana heldur er þjófstart viðtekin venja. Lögreglan var beðin um aðstoð í gær.

Tryggvi Már Sæmundsson, formaður þjóðhátíðarnefndar, sagði þó að mjög vel hefði tekist til í ár.

Lögreglan lokaði dalnum

Ástandið í dalnum er eldfimt í aðdraganda þess að tjaldstæði eru tekin frá og gífurlegur þrýstingur myndast um að flýta atburðinum.  Á síðustu metrunum þorir fólk orðið ekki að yfirgefa dalinn af ótta við að missa af þessu og fær enginn að fara inn á tjaldsvæðið.

„Þetta var auglýst á fimmtudagskvöldið klukkan átta en það var þjófstartað í gær. Eins og venja er fengu sjálfboðaliðar í dalnum að velja fyrst og höfðu þeir til þess tvær mínútur áður en opnað var inn á svæðið. Okkur er mjög í mun að fólk fái þessar tvær mínútur því þetta eru einu laun sjálfboðaliðanna,“ sagði Tryggvi.

Þegar fólk tekur frá tjaldstæði mætir það á svæðið með tjaldhæla og bönd sem sýna stærð tjaldsins.

„Sjálfboðaliðarnir voru tilbúnir með hælana og böndin og svo fengum við lögregluna til þess að loka dalnum í tvær mínútur. Þegar fólk varð þess áskynja að eitthvað væri í gangi varð allt brjálað. Fólk henti sér út úr bílum og tók á rás út á golfvöll. Einn sagði síðar við mig að hann hefði haldið að það hefði orðið jarðskjálfti. Þetta var ótrúleg upplifun,“ sagði Tryggvi.

Sjálfboðaliðarnir nýttu tímann vel og voru búnir að finna sér stæði áður en skriða Vestmannaeyinga féll yfir svæðið. Á klukkustund var búið að fylla öll tjaldstæði. Þeir fáu sem mæta á svæðið á auglýstum tíma verða að láta sér lynda lélegri staði, eins og til dæmis í halla.

Tjöldin eru síðan öll reist í einu og var það gert í dag.

Ómissandi þáttur af þjóðhátíð

Tryggvi sagði að tjaldstæði í dalnum hefðu verið lagfærð í vor og þá hefðu fengist 40 ný stæði. Væri það gott því það liti út fyrir að metfjöldi yrði á svæðinu í ár. Yfirleitt væru þetta um 300 tjöld og metið væri 330. Tjöldin yrðu fleiri en það í ár. Þá sagði hann það færast í vöxt að gestkomandi í Eyjum nýttu sér þessi stæði og væru þá búnir að útvega sér hvítt tjald.

Það er seglagerðin Ægir sem framleiðir tjöldin sérstaklega og síðan eru það járnsmiðjur og blikksmiðja í Eyjum sem framleiða súlurnar. Hefðbundið hvítt tjald kostar um 100.000 krónur en þau stærri sem verða sífellt vinsælli kosta um 200.000 krónur.

Tryggvi sagði að eitthvað væri um að tjöld gengu kaupum og sölum en yfirleitt tækju afkomendur við tjöldum þegar fólk hætti að nota þau.

„Þegar fólk er að taka frá tjaldstæðin er auðvitað allt vitlaust en þetta er ómissandi þáttur í þjóðhátíðarstemningunni,“ sagði Tryggvi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert