Sömu lög: Engan afslátt af mannréttindum

„Ég vil sem almennur borgari hefja baráttu fyrir því að það verði ein hjúskaparlög í landinu. Þetta hefur þegar gerst í Noregi og ég held að það sé ekki langt í að við siglum í kjölfarið,“ segir dr. Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur í Grafarholti.

Hún stofnaði á miðvikudag hóp innan vefsamfélagsins Facebook sem berst fyrir því að lög um hjúskap gagnkynhneigðra og staðfesta samvist verði sameinuð í ein. Öllum meðlimum Facebook er frjálst að ganga í hópinn.

Sigríður segir ekki nóg að lögin séu sambærileg. „Mér finnst ekki að við eigum að gefa afslátt af mannréttindum,“ segir hún og bætir við að þótt stór hópur innan kirkjunnar sé sammála henni sé þetta baráttumál á borgaralegum vettvangi og hún beiti sér fyrir því sem almennur borgari.

Frosti Jónsson er formaður Samtakanna '78. Hann segir framtakið fagnaðarefni enda sé þetta eitt helsta stefnumál samtakanna.

Í hnotskurn
Hópurinn vill að lög um hjúskap gagnkynhneigðra nr. 31/1993 og staðfesta samvist samkynhneigðra nr. 87/1996 verði sameinuð í ein hjúskaparlög og að samböndum fólks verði ekki mismunað með ólíkum nöfnum eftir kynhneigð.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert