Viðbúnaður vegna Gleðigöngu

Gleðiganga samkynhneigðra er fastur liður í tilverunni í Reykjavík í …
Gleðiganga samkynhneigðra er fastur liður í tilverunni í Reykjavík í ágústmánuði ár hvert. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun hafa allan vara á þegar Gleðiganga Hinsegin daga verður farin á morgun. Ekki hefur enn tekist að finna þann sem sendi hótunarbréf vegna göngunnar. Sprengjuleitarsérfræðingar verða á staðnum.

Lögreglan tók mjög alvarlega sprengjuhótunarbréf sem barst Stöð 2 fyrir skömmu vegna göngunnar. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á hótuninni og lögreglan hefur ekki haft uppi á sendandanum.

Geir Jón Þórisson, yfirlögreglustjóri, fundaði með forsvarsmönnum göngunnar í morgun.

„Við verðum með ýmsar öryggisráðstafanir og skipuleggjendur sömuleiðis. Hverjar þær verða nákvæmlega getum við ekki gefið upp,“ sagði Geir Jón.

Sprengjuleitarsérfræðingar á vegum sérsveitarinnar verða á staðnum og verður leitað í vögnum ef ástæða þykir til.

„Það verður reynt að gera allt til að skapa eins mikið öryggi og hægt er,“ sagði Geir Jón.

Lögreglan sér ekki ástæðu til að hvetja fólk til þess að halda sig fjarri á morgun.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert