Þórunn ræddi við Húsvíkinga

Fjölmenni var á fundinum í kvöld.
Fjölmenni var á fundinum í kvöld. mynd/Hafþór Hreiðarsson

Um 350 manns sóttu opinn fund sem Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra boðaði til á Húsavík í kvöld til að ræða nýlegan úrskurð um að áhrif fyrirhugaðs álvers á Bakka á umhverfið skuli metin heildstætt. Íbúar á svæðinu hafa gagnrýnt ákvörðunina harðlega og hafa krafist svara.

Þær fyrirspurnir sem fram komu á fundinum voru allar á eina leið, en fundargestir eru ósáttir við ákvörðun ráðherra og skilja ekki hvers vegna hún komst að þessari niðurstöðu. Fram hefur komið að fólk hafi áhyggjur af þeirri óvissu sem hafi skapast í kjölfar ákvörðunar umhverfisráðherra. Að þeirra mati tefur ákvörðunin álversframkvæmdir um eitt ár. Þórunn segir hins vegar að aðeins sé um nokkra mánuði að ræða.

Á fundinum reyndi umhverfisráðherra fyrst og fremst að útskýra fyrir fundargestum hvers vegna hún tók þessa ákvörðun, og vísaði ráðherra til  5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum sínu máli til stuðnings. Þórunn sagði við fundargesti að henni beri að fylgja lögum. Fréttaritari mbl.is á Húsavík segir fundargesti ekki hafa fengið skýr svör hjá ráðherra við spurningum sínum. 

Auk Þórunnar var Kristján L. Möller samgönguráðherra viðstaddur fundinn.

Jóhannes Geir Sigurgeirsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landsvirkjunar, og Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings á Húsavík, eru á meðal þeirra sem tóku til máls á fundinum.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra á fundinum í kvöld.
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra á fundinum í kvöld. mynd/Hafþór Hreiðarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert