Í fangelsi fyrir hjálpsemina

Kristinn Sigurjónsson þurfti að dúsa í fangageymslum í Bandaríkjunum í fimmtán daga áður en hann var leiddur fyrir dómara.

Hann er sakaður um að hafa stundað þar vinnu án tilskilinna leyfa. Sjálfur segist hann hafa verið að aðstoða vinahjón sín á sveitabæ þeirra, þar sem maðurinn var hjartveikur og árið hafði verið þeim hjónum erfitt. Fyrir það hafi hann ekki þegið laun.

„Mér finnst að þessa meðferð megi nánast kalla pyntingar,“ segir Kristinn, en í þessa fimmtán daga fékk hann nánast ekkert að hringja, né hjálp til að lina nikótínfíkn sína. Hann þurfti að sofa í rúmi sem olli honum miklum verkjum, en fékk ekki verkjalyf er hann bað um þau. Þá segist hann hafa verið sleginn af lögreglumanni fyrir það eitt að biðja um túlk.

„Ég gæti mögulega skilið þessa meðferð ef ég hefði verið sakaður um t.d. morð eða nauðgun,“ segir Kristinn.

Hann játaði á sig brotið að eigin sögn til þess eins að sleppa úr haldi, en honum var sleppt gegn því að fara úr landi. „Ég hefði játað á mig morðið á Kennedy fyrir að vera sleppt,“ segir Kristinn og hlær.

Í hnotskurn
Kristinn var handtekinn við landamæri Kanada, sakaður um að hafa stundað vinnu án tilskilinna pappíra. Hann segist hafa hjálpað til á sveitabæ vinafólks síns, en ekki þegið fyrir það laun.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert