Ferðast um landið á traktor

Rik Albrecht ferðast um landið á traktor.
Rik Albrecht ferðast um landið á traktor. Soffía Sigurðardóttir

Hollendingur að nafni Rik Albrecht ferðast nú um landið á óhefðbundinn hátt en hann keyrir um á leigðum traktor frá Vélaveri.  „Þetta var gamall draumur hjá honum, hann fer hægt yfir en finnst þetta gaman," segir Soffía Sigurðardóttir, skálavörður í Nýadal, þar sem Rik dvaldist í nokkra daga.

Rik er einn á ferð og hófst ferðlagið 6.ágúst.  Að sögn Soffíu keyrði Rik um Þingvelli, norður Kjöl og norður fyrir Skaga, frá Varmahlíð upp Skagafjörð, og gegnum Laugafell áður en hann kom í Nýadal.

„Þetta hefur gengið mjög vel hjá honum.  Traktorinn er á stórum dekkjum og finnur lítið fyrir þvottabrettunum, en er nokkuð hastur á stórgrýti samt, en góður yfir ár og svoleiðis," segir Soffía. 

„Þetta er skynsamlegra farartæki en ég hef séð hjá mörgum," bætir Soffía við en hún hefur hitt marga erlenda ferðamenn sem hafa sagst vera á góðum fjórhjólaökutækjum sem síðan reyndust ekki henta vel fyrir hálendið.

Rik var nokkuð lengi að skipuleggja ferðalagið að sögn Soffíu og hafði samband við þrjú fyrirtæki til þess að leigja traktor, en eitt vildi ekki leigja honum.  Rik geymir farangurinn sinn og tvo auka olíubrúsa  í traktornum.   

„Héðan ætlar hann fjallabaksleið nyrðri og síðan syðri og í Hrauneyjar og svo langaði honum að taka krók til þess að skoða Jökulsárlón," segir Soffía og bætir við að Rik muni enda ferðalagið með því að fara Krýsuvíkurleiðina inn í Hafnarfjörð.   Þar lýkur Rik ferðalagi sínu þann 21. ágúst og fer heim til Hollands daginn eftir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert