Nýr meirihluti myndaður

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks, verður borgarstjóri og Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokks, verður formaður borgarráðs í nýjum meirihluta, sem tekur við á aukafundi borgarstjórnar Reykjavíkur á fimmtudag.

Þá verður einnig kynntur nýr málefnasamningur flokkanna, sem mun byggja að stórum hluta á þeim málefnasamningi, sem lá til grundvallar samstarfinu að loknum síðustu kosningum.

Þau Hanna Birna og Óskar hittust í Ráðhúsi Reykjavíkur í kvöld og hófu formlegar viðræður. Laust eftir klukkan 22 komu þau út úr herbergi borgarráðs og tilkynntu, að þau hefðu skrifað undir yfirlýsingu undir yfirskriftinni: Höldum áfram.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hafa ákveðið að hefja á ný meirihlutasamstarf í Reykjavík. Málefnagrundvöllur samstarfsins mun að stórum hluta hvíla á þeim málefnasamningi, sem lá til grundvallar samstarfinu að loknum síðustu kosningum. Breyttar aðstæður í efnahagsumhverfi kalla hins vegar á ákveðnar viðbætur við þann samning, en þar vega þyngst viðfangsefni á sviði efnahagsmála, fjárhagsáætlunargerðar og atvinnumála.

Nákvæmlega útfærður málefnasamningur verður kynntur á aukafundi borgarstjórnar, sem boðað verður til næstkomandi fimmtudag. Þá verður einnig kynnt verkaskipting flokkanna en Hanna Birna Kristjánsdóttir mun taka við embætti borgarstjóra og Óskar Bergsson verður formaður borgarráðs.

Borgarfulltrúar beggja flokka vænta mikils af áframhaldandi samstarfi. Flokkarnir eru sammála um að fyrri ágreiningsmál þeirra séu að fullu leyst og telja, að meirihlutasamstarf þessar tveggja flokka muni skila borgarbúum bestum árangri."

Þau Óskar og Hanna Birna lýstu bæði yfir mikilli ánægju með viðræður sínar í kvöld og sagðist Hanna Birna ekki hafa átt árangursríkari fund í seinni tíð. Hún sagði m.a. að sjálfstæðismenn væru afar sáttir við þessa niðurstöðu og það sama hefði Óskar skynjað í sínu baklandi. 

Þau fullyrtu að þessi meirihluti myndi halda út kjörtímabilið. „Ég held að þetta hafi verið eina leiðin, sem var fær," sagði Hanna Birna.

Hanna Birna ræddi við fréttamenn í Ráðhúsinu í kvöld.
Hanna Birna ræddi við fréttamenn í Ráðhúsinu í kvöld. mbl.is/Frikki
Hanna Birna Kristjánsdóttir og Óskar Bergsson ræða við fréttamenn í …
Hanna Birna Kristjánsdóttir og Óskar Bergsson ræða við fréttamenn í Ráðhúsinu í kvöld. mbl.is/Frikki
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert