Hanna Birna og Óskar á fundi

Hanna Birna ræðir við fréttamenn í Ráðhúsinu í kvöld.
Hanna Birna ræðir við fréttamenn í Ráðhúsinu í kvöld. mbl.is/Frikki

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, og Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokks, komu í Ráðhús Reykjavíkur til formlegra viðræðna laust eftir klukkan 20 til að ganga frá meirihlutasamstarfi flokkanna.

Hanna Birna sagði, að ástæðan fyrir því, að sjálfstæðismenn ákváðu að slíta samstarfinu við Ólaf F. Magnússon, borgarstjóra og borgarfulltrúa F-lista, væri sú að það hefði í nokkuð langan tíma verið of mikill ágreiningur milli flokkanna um stór og mikilvæg mál.

„Ólafur er sterkur og mikill prinsipmaður og það var að okkar mati skortur á nauðsynlegri málamiðlun. Ákveðin málefni á vettvangi borgarstjórnar, sem að okkar mati þarf að skapast kyrrð um, voru sett í óþarflega mikinn átakafarveg," sagði Hanna Birna. Hún neitaði því, að tímabundin ráðning Gunnars Smára Egilssonar sem fjölmiðlaráðgjafa á skrifstofu borgarstjóra, hefði skipt máli í þessu sambandi.

Hanna Birna sagði, að sjálfstæðismenn hefðu rætt um ýmsar breytingar á samstarfinu. Ólafur hefði hins vegar ekki tekið undir þær áhyggjur, sem sjálfstæðismenn höfðu og það endurspeglaðist að nokkru leyti í þessari niðurstöðu, sem nú væri orðin. 

Hún sagði að sjálfstæðismenn hefðu enga lausn séð aðra í stöðunni en að slíta samstarfinu. „Við getum ekki annað en þakkað Ólafi fyrir samstarfið, sem að mörgu leyti hefur verið árangursríkt. Þetta snýst ekkert um persónu Ólafs F. Magnússonar. Þetta lýtur að því að við teljum að hagur borgarbúa verði (betur) tryggður með öðrum hætti." 

Bæði Hanna Birna og Óskar sögðust hafa í dag verið í viðræðum við eigin flokksmenn og engar viðræður hefðu farið fram á milli þeirra þar til í kvöld. Hanna Birna sagðist hafa hringt í Óskar eftir hádegið eftir að samstarfinu við F-listann var slitið en síðan hefðu þau rætt við sína flokksmenn og bakland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert