Bitruvirkjun á kortið á ný?

Af Hengilsvæðinu þar sem til stóð að byggja Bitruvirkjun
Af Hengilsvæðinu þar sem til stóð að byggja Bitruvirkjun Af vefnum hengill.nu

Kjartan Magnússon, formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur, segir að ekki liggi fyrir nein ákvörðun um hvort farið verði út í framkvæmdir við Bitruvirkjun nú eftir slit á meirihlutasamstarfi sjálfstæðismanna og Ólafs F. Magnússonar í borgarstjórn Reykjavíkur. Það muni koma í ljós í málefnasamningi nýs meirihluta í borgarstjórn, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem kynntur verður næstkomandi fimmtudag.

Ólafur F. Magnússon sagði nýverið alveg ljóst að Bitruvirkjun hafi verið slegin af en haft var eftir Kjartani á þeim tíma að aldrei hafi verið samþykkt í stjórn OR að hætta við Bitruvirkjun heldur hafi einungis undirbúningi verið hætt meðan málið er skoðað betur.

Þann fimmta júní sl. felldi borgarráð Reykjavíkur tillögu Óskars Bergssonar, borgarráðsfulltrúa Framsóknarflokksins, um að endurskoða ákvörðun um að hætta við Bitruvirkjun. Segir Óskar í bókun, að með þessu hafi borgarráð lagt blessun sína yfir ákvörðun sem tekin var í fljótfærni og muni kosta Orkuveitu Reykjavíkur um einn milljarð króna. 

Samkvæmt heimildum mbl.is litu sjálfstæðismenn aldrei þannig á að virkjunin hafi verið slegin af heldur einungis hafi henni verið frestað á meðan farið væri yfir niðurstöðu  Skipulagsstofnunar.

Í áliti Skipulagsstofnunar vegna framkvæmda við Bitruvirkjun kemur fram að bygging virkjunarinnar sé ekki viðunandi vegna verulegra neikvæðra og óafturkræfra áhrifa á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Segir í áliti Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð Bitruvirkjun myndi breyta landslagsásýnd þessa lítt raskaða svæðis í ásýnd iðnaðarsvæðis.  

Að því gefnu að Óskar hafi ekki breytt um skoðun frá því í júní og miðað við þær áherslur sem lagðar verða á atvinnumál í nýjum málefnasamningi nýs meirihluta má telja líklegt að nýr meirihluti muni skoða þann möguleika að breyta fyrri áformum um Bitruvirkjun þannig að þau falli betur að niðurstöðu Skipulagsstofnunar.

Sjá samþykkt stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur um málefni Bitruvirkjunar 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert