Ekki sáttur við þjónustu Íslandspósts

„Það eru dæmi þess að menn þurfi að keyra átta kílómetra til að sækja póstinn og svo getur hver sem er farið í þetta,“ segir Einar Hafliðason, bóndi í Fremri-Gufudal í Reykhólasveit. Hann er ósáttur við þá þjónustu sem Íslandspóstur veitir bóndabæjum á landinu. Hann telur jafnvel hugsanlegt að hún standist ekki lágmarkskröfur laga um póstþjónustu.

Nú er pósturinn ýmist keyrður heim á hlað allt að fimm sinnum í viku eða honum komið í póstkassa við afleggjara sem liggja að bæjunum en kassarnir eru ólæstir.

Einar telur fyrir neðan allar hellur að pósturinn sé ekki keyrður heim að dyrum alls staðar. Eins og er berst pósturinn heim að Fremri-Gufudal fimm sinnum í viku en hann segir Póst- og fjarskiptastofnun hafa heimilað að skiptunum verði fækkað í þrjú. Hann býst jafnvel við að brátt verði honum gert að sækja póstinn í póstkassa úti við veg.

Ólík aðstaða

Ágústa Hrund Steinarsdóttir, forstöðumaður markaðs- og kynningardeildar Íslandspósts, segir mjög erfitt að gera kröfur um sömu póstþjónustu við sveitabæi og íbúa í þéttbýli. „Við reynum að gera eins vel við alla viðskiptavini og hægt er,“ segir hún en alltaf þurfi að taka tillit til aðstæðna og kostnaðar. Þess vegna sé málum svo háttað sem raun ber vitni hér á landi sem og víða erlendis.

Aðspurð hvort þetta standist lög segir Ágústa svo vera. Íslandspóstur starfi undir handleiðslu Póst- og fjarskiptastofnunar og ekkert sé aðhafst án leyfis hennar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert