Er í lagi að refsa börnum líkamlega?

Héraðsdómur Norðurlands eystra
Héraðsdómur Norðurlands eystra mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Nýfallinn dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra þar sem karlmaður var sýknaður af líkamsárásarákæru fyrir að hafa ítrekað flengt fjögurra og sex ára drengi vekur upp spurningar um hvort foreldrum leyfist almennt að beita börn sín líkamlegum refsingum.

„Það er fráleitt í lagi,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, spurður um hvort í lagi sé að rassskella börn. Hann bendir á fjölda rannsókna máli sínu til stuðnings þar sem fram komi að ofbeldi af þessu tagi hafi mikil sálræn áhrif á börnin.

„Það er alveg fráleitt að ætla að þetta hafi ekki nein áhrif á börnin. Að meta hegðun af þessu tagi sem skaðlausa er algjörlega óviðunandi,“ bætir Bragi við, en héraðsdómur sagði að ekki væri séð að flengingarnar væru til þess fallnar að skaða drengina andlega eða líkamlega.

Bragi telur dóminn senda hörmuleg skilaboð til samfélagsins og sé niðurstaðan á skjön við mannréttindasamninga sem og samþykktir Evrópuráðsins.

„Foreldrar þurfa að hafa ákveðið svigrúm,“ segir Hildigunnur Hafsteinsdóttir sem nýverið skrifaði meistararitgerð í lögfræði við Háskóla Íslands. Bar ritgerðin heitið Líkamlegt ofbeldi gegn börnum. Hildigunnur er sammála niðurstöðu héraðsdóms og segir íslensk lagaákvæði óskýr. „Í Svíþjóð eru miklu afdráttarlausara lagaákvæði. Þar bara má ekki leggja hendur á börn, það má ekki refsa þeim líkamlega.“ útskýrir Hildigunnur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert