Össur: Guðni sannkallaður hvalreki

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson mbl.is/Dagur

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra segir á bloggvef sínum að Guðni A. Jóhannesson hafi reynst sannkallaður hvalreki. Fyrr á árinu réð Össur Guðna í embætti orkumálastjóra og var málinu vísað til kærunefndar jafnréttismála. Kærunefndin hefur úrskurðað í málinu og segir að ráðherra hafi ekki brotið jafnréttislög.

„Í upphafi árs var hart deilt á mig vegna ráðningar dr. Guðna A. Jóhannessonar í embætti orkumálastjóra. Skemmst er frá því að segja, að hann hefur reynst sannkallaður hvalreki.

Ég valdi dr. Guðna á endanum af því að öllu samanlögðu komst ég að þeirri niðurstöðu að hann væri langhæfastur – og þar réði meðal annars skýr sýn hans á framtíðarstefnu Orkustofnunar og leiðtogahæfileikar. Dr. Guðna valdi ég úr hópi þriggja hæfustu umsækjendanna þar sem meðal annarra var ágæt og hæf kona. Í kjölfarið var ég ásakaður af pólitískum andstæðingum af töluverðri grimmd fyrir að hafa brotið jafnréttislög. Kvennanefnd Verkfræðingafélagsins blandaði sér einnig í málið með ályktun. Kostulegast þótti mér að formaður Verkfræðingafélagsins beitti sér undir þeim titli í fjölmiðlum þar sem taumur eins umsækjenda var dreginn á kostnað annars, dr. Guðna, sem er einnig félagi í Verkfræðingafélaginu. Málinu var vísað af konunni í hópi þremenninganna til kærunefndar jafnréttismála einsog hún hafði allan rétt til.

Nú hefur kærunefndin kveðið upp sinn úrskurð. Hann var skýr, og sagði afdráttarlaust að ég hefði ekki brotið jafnréttislögin. Ráðning dr. Guðna hefði verið lögleg, og röksemdir mínar fyrir henni eðlilegar. Sú niðurstaða mín, að dr. Guðni hefði verið hæfastur umsækjenda var einfaldlega málefnaleg að dómi kærunefndar jafnréttismála," að því er segir á bloggvef Össurar.

Bloggvefur Össurar Skarphéðinssonar 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert