Borgarstjórinn: Kemur alltaf aftur

Ólafur F. Magnússon.
Ólafur F. Magnússon. Árvakur/Árni Sæberg

„Ég hef afsannað það margoft að mínum pólitíska ferli væri lokið. Ég var hleginn í burtu af landsfundi Sjálfstæðisflokks, virtist vera dottinn út úr borgarstjórn við lok talningar árið 2002 og tuttugufaldaði fylgið úr skoðannakönnunum á kosninganótt 2006. Ég heiti ykkur því að ég kem aftur, enda læt ég ekki dæma mig úr pólitík í skoðannakönnunum. Ég hætti ekki fyrr en ég hef verið kosinn út,“ segir Ólafur F. Magnússon, sem í dag mun stíga niður sem borgarstjóri Reykjavíkur þegar nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar tekur við völdum.

Telur sig illa svikinn

Hann segist illa svikinn af Kjartani Magnússyni og Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni vegna slita meirihlutasamstarfs við sig. „Ég hefði aldrei gengið til þessara meirihlutaskipta nema vegna einlægrar trúar á því að ég væri að skrifa stjórnmálasögu Reykjavíkur með því að koma að brýnum hagsmunamálum langt umfram mitt pólitíska vægi. Ég held mig enda hafa stuðning borgarbúa fyrir þeim.

Eftir svona langa eftirgöngu af hálfu sjálfstæðismanna taldi ég mig hafa tryggingu fyrir því, og drengskapaloforð Kjartans og Vilhjálms, að þeir myndu aldrei kasta mér fyrir borð að ósk hinna fimm borgarfulltrúanna. Það getur vel verið að ég sé hrekklaus og barnalegur, en drengskaparloforð af þessu tagi eiga menn ekki að svíkja þótt þeir séu í pólitík og fái fyrirmæli að ofan. Ýmsir foringjar ráða mjög miklu hjá borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokks.“

Ráðherrar með bein áhrif

Aðspurður um hvaða foringja sé þar að ræða segir Ólafur það ekki vera neitt launungarmál. „Það hefur verið vandamál að tengsl forystu Sjálfstæðisflokksins inn í borgarstjórnarflokk hans eru að mörgu leyti óeðlileg. Ráðherrar flokksins eru í beinum samskiptum við borgarfulltrúa hans varðandi til dæmis einkavæðingarmál í borgarkerfinu. Þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Björn Bjarnason og Guðlaugur Þór Þórðarson hafa þar mikil og bein áhrif. Það var á stundum meira samráð við þau í málum en var við mig, sem var borgarstjóri.“

Ólafur segist hvorki hafa rætt við Kjartan né Vilhjálm frá því að meirihlutasamstarfinu var slitið í síðustu viku. „Ég tel ekki að við höfum um margt að ræða á næstunni, ég er það illa svikinn. Ég held að Vilhjálmur skammist sín mikið og hef séð að Kjartan hefur reynt að ná í mig en hef ekki séð ástæðu til að svara honum. Honum líður örugglega mjög illa núna.“

Hljóta að fagna liðsaukanum

Ólafur tilkynnti á þriðjudag að hann ætlaði sér að ganga aftur til liðs við Frjálslynda flokkinn og bjóða fram undir merkjum hans í næstu borgarstjórnarkosningum. Tíðindunum hefur verið tekið misjafnlega innan flokksins, en Ólafur skilur illa ótta ákveðinna manna í sinn garð. „Ég hefði haldið að það væru hagsmunir stjórnmálaflokks að fá mann til liðs við sig sem hefur starfað vel fyrir flokkinn áður. Samstarf mitt við Frjálslynda flokkinn varð til þess að F-listinn fékk kjörinn borgarfulltrúa í Reykjavík árin 2002 og 2006. Þessi flokkur hefur aldrei fengið kjördæmakjörinn þingmann í Reykjavík heldur hafa þingmenn Reykjavíkur tvívegis verið dregnir inn af Guðjóni Arnari Kristjánssyni. Ég fékk hins vegar kjörfylgi í borginni í síðustu kosningum sem hefðu dugað mér til að ná kjöri sem alþingismaður fyrir flokkinn í alþingiskosningum.

Á eftir kosningasigrum Guðjóns Arnars Kristjánssonar á Vestfjörðum, sem dró flokkinn inn á þing þrisvar í röð, þá hafa mestu sigrar Frjálslynda flokksins unnist í borginni undir minni forystu.

Ég hef lesið skrif Jóns Magnússonar og Magnúsar Þórs Hafsteinssonar í minn garð en hyggst ekki gjalda þeim í sömu mynt. Þeir ættu að fagna þessum mikla liðsauka sem hlýtur að auka líkurnar á því að Frjálslyndi flokkurinn vinni sinn þriðja stórsigur í Reykjavík.

Ég vil starfa með þeim og öðrum í þessum flokki að því að stefna F-listans í borginni nái fram í næstu kosningum og gefa þannig þeim sem kusu hann síðast kost á því að gera það aftur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert