Íslenskur handbolti á forsíðu New York Times

Ólafur Ragnar Grímsson fagnar sigri á Spánverjum með Hreiðari Levy …
Ólafur Ragnar Grímsson fagnar sigri á Spánverjum með Hreiðari Levy Guðmundssyni og Sturlu Ásgeirssyni. AP

Árangur íslenska handboltalandsliðsins í undanúrslitaleik gegn Spánverjum í gær vakti víða athygli. Ekki aðeins var fjallað um árangur liðsins í íslenskum fjölmiðlum heldur sýndu erlendir miðlar gengi liðsins mikinn áhuga. Þar á meðal var bandaríska stórblaðið New York Times sem birti í dag á forsíðu sinni mynd af íslenska liðinu að fagna í leikslok.

Myndin birtist undir fyrirsögninni „An Olympic Saga Continues“. Inni í blaðinu er umfjöllun um leik íslenska liðsins og viðtal við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, nokkra úr íslenska liðinu og íslenska sendimenn.

Þar kemur m.a. fram að á fundi Ólafs Ragnars og Hu Jintao, forseta Kína, í fyrrinótt, hafi kínverski forsetinn boðið þeim íslenska til hádegisverðar á morgun. Þetta var fyrir leik Íslands og Spánar og Ólafur Ragnar segist hafa sagt Hu, að hugsanlega yrði hann að fara snemma ef hann þyrfti að fylgjast með íslenska liðinu spila um bronsverðlaun. Ef Ísland spilaði um gull lægi honum ekkert á því sá leikur væri síðdegis að kínverskum tíma.

„Ég vona svo sannarlega að þú getir verið hér allan hádegisverðinn," hefur Ólafur Ragnar eftir Hu. „Mér fannst þetta afar diplómatísk aðferð hjá forsetanum við að lýsa stuðningi við íslenska liðið." 

Forsíða New York Times í dag

Greinin sjálf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert