HSÍ fær 50 milljónir

mbl.is/Brynjar Gauti

Ríkisstjórnin ákvað á fundi í dag, að styrkja Handknattleikssamband Íslands um 50 milljónir króna. Var þetta gert að tillögu menntamálaráðherra vegna frækilegs árangurs íslenska landsliðsins í handbolta og einstæðs afreks á
ólympíuleikunum í Peking, að því er kemur fram í tilkynningu.

Íslenska handboltalandsliðið vann silfurverðlaun á ólympíuleikunum og lék um gullverðlaun við Frakka en tapaði þeim leik. 

Ólympíufararnir koma heim á morgun og býður ríkisstjórnin, Reykjavíkurborg og Íþrótta- og ólympíusamband Íslands til fagnaðarfundar íslensku þjóðarinnar. Ákveðin hefur verið ný akstursleið frá Skólavörðuholti en þaðan mun handboltalandsliðið leggja af stað í opnum vagni kl. 18 í fylgd lúðrasveitar, fánabera ungs íþróttafólks og lögreglu.

Ekið verður niður Skólavörðustíg og Bankastræti að Arnarhóli. Þar verður haldinn fagnaðarfundur ólympíufaranna og íslensku þjóðarinnar sem er hvött til að fjölmenna og sýna íþróttafólkinu þakklæti sitt fyrir glæsilega frammistöðu á ólympíuleikunum í Peking.

Þeir sem ætla að taka þátt í fagnaðinum við Skólavörðustíg og á Arnarhóli eru hvattir til að mæta tímanlega, nota almenningssamgöngur til að komast í miðborgina eða leggja bílum sínum í hæfilegri fjarlægð frá samkomustaðnum til að greiða fyrir umferð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert