Dagur B. Eggertsson er á flokksþingi demókrata

Dagur B. Eggertsson
Dagur B. Eggertsson mbl.is/Golli

„Stemningin er gríðarlega góð hérna í Denver,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi sem staddur er á flokksþingi bandarískra demókrata í Denver í Colorado.

Eiginkona Obama, Michelle, flutti aðalræðuna á flokksþinginu á mánudagskvöldinu, þar sem hún sagði að eiginmaður hennar yrði framúrskarandi forseti. Lagði hún sérstaka áherslu á að Obama-fjölskyldan væri venjuleg bandarísk fjölskylda sem hefði í heiðri hefðbundin bandarísk gildi. Dagur segir menn á einu máli um að Michelle hafi slegið í gegn. „Hingað til hefur einungis verið talað um hana sem konu hans, en eftir ræðuna voru menn farnir að tala um framtíð hennar sem stjórnmálamanns.“

Dagur segir óhætt að segja að í Denver sé nú ógrynni varnings sem tengist Obama og Demókrataflokknum til sölu. „Hérna eru stærstu stuttermabolir sem ég hef nokkurn tíma séð, með Obama og varaforsetaefninu Joe Biden framan á. Svo er hægt að fá missmekklegar bindisnælur með mynd af Obama og öllu sem nafni tjáir að nefna. Það eina sem vantar er að maður sjái „Obama-mobile“ til sölu og önnur stærri tæki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert