Framkvæmdir hafnar í Bakkafjöru

Skrifað undir samning um Landeyjarhöfn og Bakkafjöruveg
Skrifað undir samning um Landeyjarhöfn og Bakkafjöruveg mbl.is/Helgi Bjarnason

Stórvirkar vinnuvélar og mannafli er kominn í Bakkafjöru þar sem hafnar eru framkvæmdir við Landeyjahöfn. Áætlað er að verkinu verði lokið í júlí 2010.

Samningur milli Vegagerðarinnar, Siglingastofnunar og Suðurverks hf. um gerð Landeyjahafnar var undirritaður fyrr í mánuðinum. Tilboð Suðurverks hljóðaði upp á um 1,9 milljarð króna sem er 60% af kostnaðaráætlun.

Á vef Samtaka iðnaðarins kemur fram að um 50 vinnuvélar af Caterpillargerð eru í eigu Suðurverks auk nýrra vinnuvéla eins og námubíla sem vega frá 50 til 82 tonn fullhlaðnir.

Miklir efnisflutningar verða úr jarðvegsnámum sem eru í nokkurri fjarlægð og verða stærri námubílar fluttir frá Seljalandsheiði. Þeir eru um 80 til 90 tonn og mega hvorki aka með farm eftir þjóðvegum né fara yfir brúna á Markarfljóti. Fljótið verður að öllum líkindum brúað nokkru ofar með stáli og öðru efni sem kemur meðal annars úr Vikartindi, sem strandaði suður af landinu fyrir nokkrum árum, að því er segir á vef SI.

Byggðir verða tveir 700 metra hafnargarðar, Bakkafjöruvegur gerður en hann er tæpir 12 kílómetrar frá Hringveginum auk þess sem 20 metra brú verður byggð. Þá verður vegtenging gerð að Bakkaflugvelli og sjó- og varnargarðar gerðir í Bakkafjöru.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert