Breytingar á dreifingu Fréttablaðsins

Ari Edwald, forstjóri 365 hf.
Ari Edwald, forstjóri 365 hf. mbl.is/Sverrir

Ari Edwald, forstjóri 365, segir að verið sé að gera breytingar á dreifingu Fréttablaðsins, en hætt verður að dreifa blaðinu inn á hvert heimili í fimm bæjum á landsbyggðinni. Pósthúsið, sem er dótturfyrirtæki 365, hefur sagt upp 129 manns sem hafa starfað við dreifingu Fréttablaðsins.

Ari segir að breytingarnar, sem eru gerðar í hagræðingarskyni, muni eiga sér stað á næstu þremur mánuðum. Hann segir að hætt verði að dreifa blaðinu á Akranesi, Borgarnesi, Reykjanesbæ, Hveragerði og á Selfossi. Aðspurður segir hann að þeir sem missa vinnuna starfa við dreifingu í ofangreindum sveitarfélögum.

„Við erum að þróa aðrar aðferðir til að bæta dreifinguna um allt land. Við höldum áfram að dreifa í hvert hús á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri,“ segir Ari. Varðandi önnur bæjarfélög á landinu segir Ari að stefnt sé að því að koma upp sérstökum dreifingarkössum inni í hverfunum. Þannig verði dreifingin nær lesendum en verið hefur.

„Það hvernig okkur gengur að koma þessari nýju dreifingu í gagnið byggir auðvitað á samstarfi við sveitarfélög. Og við erum að kynna þetta fyrir þeim. Þau taka því í sjálfu sér misjafnlega.“ Mörg hafi áhuga á samstarfinu sem og að auka endurvinnslu á blöðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert