Börn þiggi ekki far hjá ókunnugum

Lögreglan hvetur börn og foreldra þeirra að láta lögregluna vita …
Lögreglan hvetur börn og foreldra þeirra að láta lögregluna vita ef ókunnungir einstaklingar reyni að bjóða börnunum far. Reuters

Lögreglan brýnir fyrir foreldrum að kenna börnum sínum að þiggja ekki far hjá ókunnugum, en dæmi eru um að fullorðið fólk bjóði börnum far í annarlegum tilgangi. Í dag hefur lögreglan mál til rannsóknar þar sem fullorðinn maður bauð 11 ára gömlum dreng far, sem var að ganga heim úr skólanum.

Ökumaðurinn stöðvaði bifreiðina, ræddi við drenginn og bauð honum far. Drengurinn afþakkaði farið og hélt göngunni áfram. Maðurinn veitti honum þá eftirför og gaf sig aftur á til við drenginn áður en hann ók á brott. Drengnum var brugðið og lét foreldra sína vita sem höfðu samband við lögregluna.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn rannsóknadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að um einangrað tilvik sé að ræða, sem sé í rannsókn. Hann segir að drengurinn hafi brugðist rétt við.

Þá segir Friðrik að það sé eðlilegt að fólk fyllist efasemdum þegar fullorðnir menn bjóði ókunnugum börnum far, slíkt verði ávallt túlkað á versta veg. Það sé ávallt ástæða til að fólk sé á varðbergi.

Hann bendir hins vegar á að sá möguleiki sé ávallt fyrir hendi - t.d. hvað þetta tilvik snerti - að ökumaðurinn hafi ekki haft neitt illt í hyggju. Þrátt fyrir það segir Friðrik að foreldrar verði að brýna fyrir börnum að fara ekki upp í bíla hjá ókunnugu fólki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert