ÍBV fær ekki að leika í úrvalsdeild á óbreyttum Hásteinsvelli

Á Hásteinsvelli er Brekkan einskonar stúka.
Á Hásteinsvelli er Brekkan einskonar stúka. mbl.is/Sigfús

Knattspyrnusamband Íslands er óhagganlegt í þeirri afstöðu að ÍBV fái ekki að leika heimaleiki sína í úrvalsdeild, nema reist verði stúka fyrir sjö hundruð áhorfendur á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum. Þetta segir  Elliði Vignisson, bæjarstjóri, í samtali við blaðið Fréttir í Eyjum. Segist Elliði vera vonsvikinn með afstöðu KSÍ og það sé súrt í broti að þurfa að sæta þessum kostum.

Fram kemur í Fréttum, að Elliði átti í síðustu viku óformlegan fund með formanni KSÍ, framkvæmdastjóra sambandsins og formanni leyfisnefndar um stúkumálið. Á fundinum ítrekaði KSÍ að samkvæmt reglum sambandsins fengi ÍBV ekki að spila heimaleiki sína í úrvalsdeild nema reist yrði sjö hundruð manna stúka á vellinum.

Elliði segist hafa gert KSÍ grein fyrir því, að bæjarfélagið og ÍBV hefðu sett uppbyggingu aðstöðu fyrir íþróttafólkið í forgang, en ekki stúkubyggingu. Hefur hann eftir forráðamönnum KSÍ, að þeir hefðu skilning á þessu sjónarmiði, en reglugerðir sambandsins yrði að virða.

KSÍ veitti ÍBV undanþágu fyrir Hásteinsvöll til ársins 2007. Liðið hefur leikið í 1. deild undanfarin ár en nú bendir allt til þess að það tryggi sér sæti í úrvalsdeildinni og leiki þar á næsta ári.

Elliði segir við Fréttir, að um 18% íbúa Vestmannaeyja kæmust fyrir í 700 sæta stúku. Núverandi stúka er mun minni og á henni er ekki þak.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert