Stimpingar á skrifstofu AFLS

„Eignatjónið var ekki mikið en ég þurfti að eyða morgninum …
„Eignatjónið var ekki mikið en ég þurfti að eyða morgninum í tiltekt," sagði Sverrir Gunnar Gunnarsson/Austurglugginn

Framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags segist íhuga að kæra þýskan veitingamann fyrir líkamsárás. Horst Wolfgang Mueller sem rekur Café Margaret á Breiðdalsvík réðist á Sverri Albertsson á skrifstofu félagsins á Egilsstöðum í morgun.

„Þegar ég spurði hann hvert erindið væri þá sópaði hann öllu af skrifborðinu hjá mér," sagði Sverrir í samtali við mbl.is. Sverrir sagðist síðan hafa gengið fram fyrir skrifborðið til að koma í veg fyrir að maðurinn legði skrifstofuna í rúst.

Stimpingar á skrifstofunni

„Þá urðu úr þessu nokkrar stimpingar," sagði Sverrir. Mueller mun síðan hafa ætt um gangana og ausið þýskum formælingum yfir nærstadda en hann yfirgaf staðinn að sögn Sverris skömmu áður en lögreglu bar að garði.

Sverrir segir að Mueller og kona hans notfæri sér tengslanet ungs fólks í Evrópu sem leitar sér að starfsreynslu og skemmtun í skólafríinu og segir að þurft hafi að sækja til hans ungar stúlkur sem hafi verið undir stöðugu eftirliti og miklu vinnuálagi fyrir 5000 krónur á viku.

„Ég ætlaði ekki að gera neitt mál úr þessu, hér varð ekkert eignatjón og það sér ekkert á mér en mér fannst slappt hjá honum að fara. Ef hann hefði beðið eftir lögreglunni þá hefðum við getað rætt málin," Sagði Sverrir og bætti því við að þetta væri ekki framkoma sem væri bjóðandi mönnum.

Morguninn fór í tiltekt

„Ef hann leggur svona í mig sem er næstum tveggja metra maður, hvernig er þá fyrir 16 til 17 ára stúlkur að vinna hjá þessum manni sem er ekki þekktur af geðprýði enda hafa þær komið grátandi frá honum," sagði Sverrir sem segir að fara þurfi með lögregluvernd og túlk til að skoða gögn á borð við launaseðla og starfssamninga vegna rekstursins á Café Margaret.

„Eignatjónið var ekki mikið en ég þurfti að eyða morgninum í tiltekt," sagði Sverrir að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert