Nýjar forsendur fyrir léttlestum

Léttlestir í Sheffield
Léttlestir í Sheffield

Reykjavíkurborg og samgönguráðuneytið eru í sameiningu að láta endurskoða athuganir á hagkvæmni lestarsamgangna milli Reykjavíkur og Keflavíkur og léttlestarkerfis á höfuðborgarsvæðinu.

Ferlinu hefur verið skipt upp í þrjá áfanga og mun hvor aðilinn um sig leggja fram tvær milljónir króna í fyrsta áfangann sem snýst um að uppfæra fyrri hagkvæmnisathuganir sem hafa verið gerðar í þessum málum. Til þess hefur verið fenginn breskur ráðgjafi, Edwin Marks, sem kom að fyrri athugunum á lestarsamgöngum sem hafa verið gerðar hérlendis.

Stefnt er að því að niðurstöður hans liggi fyrir síðar í september og verður þá tekin ákvörðun um hvort unnin verði enn ítarlegri hagkvæmnisathugun. Hún myndi kosta allt að tíu milljónir króna.

Dagur B. Eggertsson, sem er formaður samgönguráðs ráðuneytisins, segir að verið sé að rýna sérstaklega í það hvaða gildi breyttar forsendur hafi. Í verklýsingu sem VSÓ ráðgjöf vann fyrir borgina kemur fram að mikil verðhækkun á eldsneyti, þétting byggðar í Reykjavíkur, mikil uppbygging í Reykjanesbæ og mikil fjölgun farþega sem fara um Leifsstöð séu meðal þeirra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert