Óbreytt aðsókn er í flugnámið

Það hafa margir áhuga á að læra flug
Það hafa margir áhuga á að læra flug mbl.is

Kennarar í flugskólum á höfuðborgarsvæðinu finna ekki fyrir minnkandi áhuga á flugnámi, þrátt fyrir að á annað hundrað flugmanna hafi fengið uppsagnarbréf síðustu mánuði.

Að sögn Sigurjóns Þórðarsonar hjá Flugskóla Íslands er aðsókn í flugnám svipuð og síðustu ár. Nýhafið sé bóklegt námskeið í atvinnuflugmannsnámi og eru 28 manns skráðir í það sem að sögn Sigurjóns er í meira lagi. Aðsóknin í einkaflugmannsnámið hefur hins vegar staðið í stað síðustu 2-3 árin en áhrifa af fjöldauppsögnum flugmanna gæti gætt síðar.

Sigurjón segist ekki hafa orðið var við ugg í nemendum vegna ástandsins. Æ fleiri séu farnir að ráða sig til flugfélaga í Evrópu frekar en að bíða eftir starfi hjá Icelandair.

Að sögn Helga Jónssonar, hjá Flugskóla Helga Jónssonar, hefur ekki enn dregið úr aðsókn en að öllum líkindum mun koma að því sökum samdráttar í öllu þjóðfélaginu. Ljóst sé að núverandi nemendur muni halda áfram námi þar sem það er afar kostnaðarsamt og því dýrt að hætta við.

Fjöldi flugmanna er nú í þeirri stöðu að vera án fastrar atvinnu. Síðustu mánuði hefur yfir hundrað þeirra verið sagt upp störfum, en fyrir skemmstu voru tilkynntar uppsagnir 16 flugmanna hjá Icelandair. Haft var samband við tvo þeirra, sem voru sammála um að uppsagnirnar hefðu komið lítið á óvart miðað við núverandi ástand.

Annar þeirra, sem vildi ekki koma fram undir nafni, sagði afar erfitt að fá svona fréttir. Hann væri þó bjartsýnn á að ástandið myndi batna og flugmennirnir yrðu endurráðnir áður en uppsagnirnar tækju gildi 1. desember nk. Hann sagðist vera skráður í háskólanám sem hann hefði ekki ætlað sér að taka af fullum krafti en það myndi að öllum líkindum breytast nú.

Að sögn Gauta Sigurðssonar var fleirum sagt upp en hann bjóst við. Hann segist svartsýnn á að uppsagnirnar gangi til baka og nú taki við að leita sér að vinnu erlendis. „En það virðist ekki vera um mjög auðugan garð að grejsa þar. Ætli maður endi ekki hér heima í verkamannavinnu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert