Lögmaður kostar álíka og skip í dýptarmælingum

Fjórðungssamband Vestfjarða fundar nú á Reykhólum.
Fjórðungssamband Vestfjarða fundar nú á Reykhólum. mbl.is/RAX

Kjörnir skoðunarmenn reikninga Fjórðungssambands Vestfjarða, þeir Guðmundur Björgmundsson og Ólafur B. Halldórsson, eru ekki ánægðir með greinargerðir sumra þeirra, sem selja sambandinu þjónustu sína háu verði. 

Í áritun skoðunarmannanna á reikningum sambandsins eru gerðar nokkrar athugasemdir en þeir leggja þó til að reikningarnir verði samþykktir.

Umsögn skoðunarmannanna er á þessa leið:

„Undirritaðir hafa lokið endurskoðun bókhalds Fjórðungssambands Vestfirðinga. Góð regla er á öllum fylgiskjölum og skilmerkilega gerð grein fyrir útlögðum kostnaði. Það sem undirrituðum þykir ábótavant eru greinargerðir þeirra aðila sem selja sambandinu þjónustu sína á háu verði. Er hér um að ræða ýmsa sérfræði- og ráðgjafaþjónustu. Vera kann að þessir aðilar hafi gert forystumönnum Fjórðungssambandsins nánari grein fyrir verkum sínum en reikningar þeirra bera það ekki með sér. Flestir þessir reikningar varða staðarval olíuhreinsistöðvar. Ósundurliður reikningur „auglýsingakostnaður“ fyrir 240.000 frá ráðgjafafyrirtæki er að okkar mati ófullnægjandi. Ýmis ráðgjafafyrirtæki gera reikninga fyrir hundruð þúsunda án þess að gera neina grein fyrir tímafjölda sem í þjónustuna er lögð. Lögmannsstofa ein tilgreinir þó að klukkustundar vinna kosti um 18.000 kr. með virðisaukaskatti og rúmlega dagsverk kosti því um kvart milljón. Það vekur athygli að þetta er áþekkt tímakaup og Landhelgisgæslan tekur fyrir dýptarmælingar þar sem að líkindum er verið að leggja til skip í mælingarnar. Reikningar hótela í Reykjavík mættu gjarnan vera útgefnir á íslensku til íslenskra viðskiptavina.

Undantekning til fyrirmyndar er Náttúrustofa Vestfjarða þar sem skilmerkilega er gerð grein fyrir vinnustundum með dagsetningum og taxta útseldrar vinnu er að mati undirritaðra stillt í hóf. Við teljum að gera eigi þá kröfu til þeirra aðila sem titla sig sérfræðinga og ráðgjafa að þeir geri skilmerkilega grein fyrir hvað þeir eru að vinna, hvenær og hver sé þeirra úrseldi vinnutaxti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert