Byrjað á umdeildum vegi

Framkvæmdir eru komnar á fullan skrið við nýja veginn.
Framkvæmdir eru komnar á fullan skrið við nýja veginn. mynd/Guðmundur Sigurðsson

Framkvæmdir eru nýhafnar við Lyngdalsheiðarveg milli Þingvalla og Laugarvatns. Vegagerðin samdi við lægstbjóðanda, Klæðningu ehf. í Hafnarfirði, sem bauðst til að vinna verkið fyrir sléttar 500 milljónir króna.

Sigþór Ari Sigþórsson, framkvæmdastjóri Klæðningar, segir að fyrirtækið hafi byrjað vegagerðina upp úr miðjum ágústmánuði og brátt fari allt á fullt. Byrjað var að leggja vegtengingu frá Lyngdalsheiðarvegi að núverandi Gjábakkavegi.

Samkvæmt útboði Vegagerðarinnar skal verktakinn klára verkið haustið 2010. Sigþór segir að þeir séu að gæla við þá hugmynd að klára veginn fyrr, en það fari eftir verkefnastöðu fyrirtækisins. Fyrirtækið íhugi að vinna við verkið 16 tíma á sólarhring, á tveimur 8 tíma vöktum. Með því móti nýti þeir tækin best og skapi fleiri mönnum sínum vinnu.

Lagning Lyngdalsheiðarvegar hefur verið mjög umdeild. Pétur M. Jónasson vatnalíffræðingur hefur lengi barist gegn nýja veginum og varað við því að lífríki Þingvallavatns sé hætta búin. Hann hefur stefnt Vegagerðinni og krafist þess að úrskurður umhverfisráðherra um að veita Vegagerðinni heimild til að leggja veginn verði dæmdur ógildur.

Stefna Péturs mun, samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar, ekki tefja vegarframkvæmdina, enda hafi hún farið tvívegis í umhverfismat.
Núverandi vegur milli Þingvalla og Laugarvatns, Gjábakkavegur, er að stofni til frá árinu 1907. Hann þykir erfiður yfirferðar og hefur lengi verið kallað eftir úrbótum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert