Samningafundur með ljósmæðrum

Ljósmæður hafa boðað tveggja sólarhringa verkfall sem hefst á miðnætti …
Ljósmæður hafa boðað tveggja sólarhringa verkfall sem hefst á miðnætti annað kvöld, miðvikudagskvöld Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Samningafundur í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins er boðaður hjá ríkissáttasemjara kl. 13.00 í dag. Verði ekki samið hefst tveggja sólarhringa verkfall ljósmæðra annað kvöld, miðvikudagskvöld.

Guðlaug Einarsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, sagði að samningafundurinn legðist ágætlega í ljósmæður. „Við komum með opnum hug á þennan fund og sjáum hvort þar sé eitthvað að ræða,“ sagði Guðlaug. „Það getur allt gerst, en á síðasta fundi leit ekki vel út með lausn. Við leggjum áherslu á að leysa þetta sem allra fyrst. Verkföll eru neyðaraðgerðir sem við grípum til til þess að afstýra miklu stærra vandamáli í framtíðinni. Það er að geta ekki mannað ljósmæðrastéttina á næstu tíu árum.“

Ef ekki semst er næsta verkfall ljósmæðra boðað á miðnætti á miðvikudagskvöld og mun það standa í tvo sólarhringa líkt og verkfall þeirra í síðustu viku. Náist ekki kjarasamningur við ríkið herðir á aðgerðunum og munu verkföll ljósmæðra lengjast um einn sólarhring í hverri viku eftir þessa. Ótímabundið verkfall ljósmæðra er svo boðað frá 29. september næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert